56% landsmanna borðuðu grænmeti daglega

Grænmeti.
Grænmeti. mbl.is/Brynjar Gauti

Um 56% fullorðinna borðuðu grænmeti daglega eða oftar á seinasta ári og hefur þeim sem borða grænmeti daglega fækkað um fjögur prósentustig frá árinu 2019. Var lækkunin mest milli áranna 2019 og 2020 eða tvö prósentustig. Á árinu 2023 borðuðu mun fleiri konur (62%) en karlar (50%) grænmeti daglega eða oftar, sem er svipað neyslumynstri fyrri ára. Einnig hefur heldur fækkað í hópi þeirra sem borða ávexti daglega eða oftar á tímabilinu 2019 til ársins 2023.

Þessar upplýsingar koma fram í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknisembættisins, þar sem fjallað er um mataræði landsmanna á seinasta ári skv. niðurstöðum úr vöktun hjá Gallup og þær bornar saman við niðurstöður áranna 2019 til 2023. Einnig er stuðst við niðurstöður úr rannsókninni Heilsa og líðan á Íslandi.

Í ljós kemur að meðal karla borðuðu marktækt fleiri karlar í yngsta aldurshópnum, 18-34 ára (57%), grænmeti daglega eða oftar en í hinum tveimur aldurshópum karla, 35-54 ára (49%) og 55 ára og eldri (46%). Ekki var jafnmikill munur á neyslu grænmetis eftir aldurshópum hjá konum. Fleiri konur á aldrinum 35-54 ára borðuðu grænmeti daglega eða oftar (65%) en í elsta hópnum, 55 ára og eldri (58%).

„Algengara er að fólk borði grænmeti daglega en ávexti. Hlutfall þeirra sem borðuðu ávexti daglega var hæst árið 2019 (49%) en lækkaði nokkuð árið 2020 þegar það fór niður í 45%. Frá árinu 2021 hafa um 46% fullorðinna neytt ávaxta daglega eða oftar. Niðurstöður sýna að konur neyta frekar ávaxta daglega en karlar. Í heildina fækkaði þeim þó heldur á tímabilinu 2019-2023 sem sögðust borða ávexti daglega eða oftar,“ segir í Talnabrunni.

Benda höfundar greinarinnar á að einungis 9% svarenda náðu að uppfylla ráðlagðan dagskammt af ávöxtum og grænmeti, sem eru fimm skammtar. Enn sé því langt í land að landsmenn nái að borða ráðlagða skammta af grænmeti og ávöxtum.

Einn af hverjum tíu drakk sykraða gosdrykki daglega

Í fyrra sögðust 64% fullorðinna taka D-vítamín (lýsi eða D-vítamíntöflur) fjórum sinnum í viku eða oftar. Er það svipað hlutfall og á árinu 2022 en hærra en undangengin ár.

„Um einn af hverjum 10 fullorðinna drakk sykraða gosdrykki daglega eða oftar árið 2023 og hefur þetta hlutfall nær ekkert breyst frá 2019,“ segir í greininni. Um 10% fullorðinna drukku orkudrykki daglega eða oftar.

Í ljós kemur að tengsl eru á milli mataræðis og fjárhagsvanda svarenda. Dagleg neysla grænmetis og ávaxta er minni meðal þeirra sem eiga frekar eða mjög erfitt með að ná endum saman en þeirra sem segjast eiga auðveldara með það.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert