Andlát: Gunnar K. Gunnarsson

Gunnar Kristinn. Gunnarsson fyrrv. framkvæmdastjóri lést 4. september síðastliðinn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum, 74 ára að aldri.

Gunnar fæddist í Reykjavík 21. febrúar 1950, sonur hjónanna Gunnars Kristinssonar, verslunarmanns og söngvara, og Maríu Tryggvadóttur tannsmiðs.

Gunnar gekk í Melaskóla, Hagaskóla, Menntaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur 1974. Hann starfaði á sumrin með skóla hjá Verksmiðjunni Vífilfelli hf. og hóf störf að námi loknu sem skrifstofustjóri hjá Vífilfelli og stýrði tölvudeild fyrirtækisins til 1986. Hann varð aðstoðarforstjóri og síðar framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs hjá Olís 1986 til 1991. Hann vann ýmis störf á árunum 1991 til 1995 m.a. sem framkvæmdastjóri hjá Handknattleikssambandi Íslands og framkvæmdastjóri á heimsmeistaramótinu í handbolta sem haldið var í Reykjavík 1995. Hann var ráðinn framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum 1995 og starfaði þar til 2014 er eiginlegri starfsævi lauk.

Gunnar var virkur í félagsstörfum innan íþróttahreyfingarinnar. Hann sat í fjölda ára í stjórn handknattleiksdeildar Þróttar í Reykjavík og í stjórn HSÍ 1980-1984 og 1987-1992.

Gunnar var eftirlitsdómari hjá HSÍ frá því að eftirlitsdómarakerfi var sett á til ársins 2018. Hann var jafnframt eftirlitsdómari hjá Evrópska handknattleikssambandinu (EHF) 1993-2018, þegar hann þurfti að hætta vegna aldurs og fékk þá gullmerki EHF. Í starfinu fór Gunnar um nánast alla Evrópu.

Gunnar var formaður Golfklúbbs Vestmannaeyja 1996-2000 og sat í stjórn Golfsambands Íslands 2001-2019. Hann hlaut gullmerki HSÍ, GSÍ og ÍSÍ og silfurmerki ÍBV. Gunnar var einnig virkur félagi í Oddfellow í Vestmannaeyjum, var m.a. yfirmeistari sinnar stúku og stórfulltrúi stúkunnar fram að andláti.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir fyrrverandi bókavörður. Börn þeirra eru María Kristín, Gunnar Geir og Inga Lilý. Barnabörnin eru sjö.

Útför Gunnars fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 14. september kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert