Það eru ekki eingöngu börn með lestrarvanda sem eru undir lágmarksviðmiði í lesfimi. Margt annað getur orðið til þess að börn ná ekki tilætlaðri færni í lestri.
Til að mynda brotalöm í kennaranámi, skortur á markvissri notkun á niðurstöðum lesfimiprófs, ónóg starfsþróunartækifæri og takmarkaður stuðningur við að innleiða árangursríkari kennslu.
Þetta segir Guðbjörg Rut Þórisdóttir, læsisfræðingur hjá Miðstöð menntunar og skjólaþjónustu (MMS).
Greint var frá því á mbl.is fyrr í vikunni að 40 prósent nemenda í 6. bekk nái ekki lágmarksviðmiði þegar kemur að lestrarfærni, en hlutfall þeirra sem náðu viðmiðinu í lesfimiprófi síðasta vor var lægst í 6. bekk af öllum árgöngum.
Hlutfallið var litlu skárra í 5. og 7. bekk, en lagt er upp með að 90 prósent nemenda eigi að ná lágmarksviðmiðinu.
Nemendum sem ná lágmarksviðmiði, eða viðmiði 1, fækkar frá síðasta ári í öllum árgöngum, samkvæmt upplýsingum úr skólagátt menntamálayfirvalda, og hefur hlutfallið í raun lækkað jafnt og þétt í flestum árgöngum síðustu ár. Munurinn telst þó ekki marktækur og vandasamt er að túlka niðurstöðurnar að sögn Guðbjargar.
„Ef það ætti að draga einhverjar ályktanir af niðurstöðum frá 2017 til 2022 þá eru einu breytingarnar þær að það virðast vera smávægilegar framfarir á eldri stigum grunnskólans.“
Lesfimiprófin voru fyrst lögð fyrir árið 2016 og voru komin í mikla útbreiðslu árið 2017.
Um 95 prósent barna á yngsta stigi þreyta nú prófin en hlutfallið lækkar á unglingastiginu og segir Guðbjörg það til dæmis koma til vegna þess að kennarar meti það sem svo að ekki sé þörf á að prófa alla þá sem hafa náð mjög góðri lesfimi.
Lesfimiprófin mæla sjálfvirkni lesturs og hve nákvæmur hann er, sem hefur mikið að segja þegar kemur að lesskilningi.
Guðbjörg bendir þó á að eingöngu sé miðað við meðaltal lesinna orða.
„Það sem maður þarf að skoða og það sem maður hefur áhyggjur af eru börnin sem eru undir viðmiði 1, eða því sem telst vera lágmarksfærni, og það er ekki viðunandi hvað þetta hlutfall er hátt, til dæmis í 5., 6. og 7. bekk. Hvers vegna þetta er svona og hvað hefur gerst þarna vitum við ekki nákvæmlega. Við vitum heldur ekki hvernig þessi hópur sem er undir lágmarksviðmiðinu er samsettur.“
Gott væri að fá upplýsingar um samsetningu hópsins til að geta greint vandann frekar, því ástæður fyrir slökum árangri í lestri geti verið margvíslegar.
„Þetta eru örugglega ekki eingöngu börn með lestrarvanda. Þetta geta líka verið börn sem hafa ekki fengið næga eða markvissa kennslu og þjálfun, eða lært aðferðir sem hjálpa þeim að glíma við texta sem þyngist eftir því sem þau verða eldri.“
Ef niðurstöður úr lesfimiprófum eru skoðaðar sést að hlutfall þeirra nemenda sem nær lágmarksviðmiði er hæst í 1. bekk og lækkar svo jafnt og þétt þangað til í 8. bekk, en þá hækkar hlutfallið aftur lítillega.
Í 10. bekk hækkar líka hlutfall þeirra sem ná viðmiði 2 töluvert, en það miðast við 180 orð á mínútu.
Er það sá fjöldi orða sem talið er að nemendur á bóknámsbrautum framhaldsskóla þurfi að geta lesið til að komast yfir það námsefni sem ætlast er til af þeim. Það voru þó aðeins 37,2 prósent nemenda sem útskrifuðust úr 10. bekk síðasta vor sem náðu því viðmiði.
„Það er áhyggjuefni hvað þetta er stór hópur. 35 prósent nemenda í 10. bekk var undir viðmiði 1 síðasta vor. Þetta eru alls ekki allt börn í vanda. Þau geta verið rétt undir viðmiði, lestrarhraði upp á 145 orð á mínútu er ágætlega áheyrilegur og allt í lagi, en þetta er samt ekki næg færni fyrir framhaldsskólastigið.“
Guðbjörg segir ljóst að hátt hlutfall barna undir lágmarksviðmiði á landsvísu gefi sterkar vísbendingar um að víða þurfi að taka lestrarkennslu mun fastari tökum og í mörg horn þurfi að líta.
„Það sem spilar inn í þetta er til dæmis menntun kennara á sviði læsisfræða. Þeir hafa hana alls ekki allir. Þú getur í raun og veru útskrifast eftir 5 ára nám, með meistaragráðu úr kennaranámi án þess að hafa tekið einn einasta kúrs um lestur.“
Þá sé það einstakt á Íslandi að foreldrar komi að lestrarþjálfun barna í upphafi, en það gangi upp og niður hjá skólum að fá foreldra til liðs við sig. „Ég hef bent á að ef skólar hafa væntingar til foreldra um þátttöku þá þarf að veita foreldrum ákveðna leiðsögn um það hvernig þeir eiga að bera sig að og til hvers er ætlast af þeim. Annað er ekki sanngjarnt.“
Einnig hafi breytingar í samfélaginu með tilkomu snjalltækja áhrif, þar sem börn verji meiri tíma í öðru málumhverfi en íslensku.
„Svo standa kennarar oft frammi fyrir nemendahópi með mjög fjölbreyttar þarfir en það getur falið í sér mikla áskorun að laga lestrarkennsluna að slíkum hópi.“
Óskýr aðalnámskrá grunnskóla hafi sitt að segja, sem og skortur á fjölbreyttu mati, bæði samræmdu og mati sem nýtist í daglegu starfi skóla.
En hvað þarf að gerast til að bæta lestrarfærni barna?
„Grunnurinn liggur í áreiðanlegum upplýsingum um stöðuna hverju sinni. Þær er hægt að fá með ýmsum hætti en kosturinn við samræmt mat er sá að með því fást samanburðarhæfar upplýsingar sem varpa ljósi á stöðu nemenda í samanburði við jafnaldra og hlutlausar upplýsingar um árangur af kennslu.
Nýting á niðurstöðum samræmds mats er einnig mikilvægur liður í að reyna að ná fram jöfnum tækifærum til náms og ýtir á stjórnvöld, sveitarfélög, skóla og foreldra að halda vel á spilunum og nýta upplýsingar úr öllu mati til hagsbóta fyrir nemendur.“
Það eru skólar sem eru mjög duglegir að nýta niðurstöður t.d. lesfimiprófa en Guðbjörg segir mikilvægt að stuðla að svipuðu vinnulagi í öllum skólum til að tryggja jafnan rétt og tækifæri barna til náms. Eins þurfi að tryggja að til séu námsgögn við hæfi, námsgögn sem geri kennurum kleift að koma til móts við þarfir allra barna.
„Við köllum þetta hringrás mats og kennslu. Svo tekur skipulagning og framkvæmd kennslu og íhlutunar við og svo metum við aftur til að sjá hvernig til hefur tekist.“
En er þetta raunhæft? Er þetta bara eitthvað sem er talað um eða er verið að vinna að því að breyta til hins betra?
„Ég hef mikla reynslu af ráðgjöf til grunnskólanna þar sem ég hef aðstoðað skóla við að innleiða hringrás mats og kennslu með notkun lesfimiprófanna og annarra matstækja sem skólum standa til boða. Reynslan hefur kennt mér að slík innleiðing getur verið flókin og skólarnir þurft meiri og lengri stuðning til að festa verklagið í sessi. Og eins og áður segir þá skortir kennara oft grunninn í læsisfræðum og þurfa því svigrúm og tækifæri til að skilja vel hvað átt er við og hvað þarf að gera.“
Guðbjörg segist skynja mikinn vilja til að gera betur og að stjórnvöld virðist einnig vera á þeirri vegferð. Það taki hins vegar tíma. Um leið og hægt verði að taka upplýsingar út úr matsferli til að skoða stöðuna þá verði hægt að veita þeim skólum sem ekki standa sig nógu vel viðeigandi aðstoð.
„Þá verður hægt að styðja miklu meira við skólana en gamla Menntamálastofnun var fær um að gera.“
En er ekki líka þörf á að gera breytingar á kennaranáminu?
„Ég myndi hiklaust halda því fram. Lestur og læsi er grundvallarfærni og mjög mikilvægt að allir kennarar, jafnt bóklegra og verklegra greina, hafi einhvern grunn í læsisfræðum. Jafnframt þurfa allir kennarar að hafa þekkingu á eðli lestrarvanda nemenda sinna ef hann er til staðar svo dæmi séu tekin.“
Lausnin á vandanum er því til, það þarf bara að innleiða hana?
„Já, reynsla mín af ráðgjöfinni hefur kennt mér það að skólasamfélagið er meira en tilbúið, en það þarf meiri stuðning og til lengri tíma. Í skólum er fjölbreyttur hópur kennara og oft leiðbeinenda með mismikla þekkingu á lestrarkennslu og læsisfræðum. Það þarf að bregðast við því.
Ef komið er til móts við þann veruleika er sjálfsagt að stjórnvöld og sveitarfélög geri ríkari kröfu um árangur. Það er þó ekki nóg að krefja skólana um árangur, það þarf líka að skapa aðstæður þar sem kennari getur náð árangri með bekkinn sinn.
Þetta kallar á skýra læsisstefnu, öfluga stoðþjónustu og samræmd viðbrögð innan skólans þar sem margir kennarar koma að því að gera hvert barn læst. Og ekki má gleyma ábyrgð foreldra á læsi barna þeirra.“
Nú stendur yfir endurskoðun á lesfimiprófununum hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, eins og mbl.is hefur greint frá, en Guðbjörg segir mjög gagnlegum upplýsingum hafa verið safnað síðustu ár sem hægt er að læra af.
Fyrsta breytingin sem farið verður í nú í haust er að fækka próftextum til að geta fylgst betur með framförum barna. Næsta skrefið er að skoða lesfimiviðmiðin.
„Við höfum verið að rannsaka áhrif lesfimi á lesskilning og við sjáum að við þurfum að hækka viðmiðin í ákveðnum árgöngum. Markmiðið með endurskoðuninni er að gera matstækið betra þannig það veiti betri upplýsingar til kennara og foreldra.“