Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell er lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
„Gosið stóð yfir í um 14 daga og er það þriðja lengsta eldgosið af þeim sex sem hafa orðið á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023. Gosið sem hófst um miðjan mars stóð í um 54 daga og eldgosið sem hófst í lok maí stóð yfir í um 24 daga,“ segir í tilkynningunni.
Engin sjáanleg virkni hefur verið í gígnum í um hálfan sólarhring en síðustu merki um gosóróa sáust síðdegis í gær.
Fram kemur í tilkynningunni að landris sé hafið að nýju í Svartsengi og að nýtt hættumat verði uppfært síðar í dag.