Eltir börn: „Viljum gjarnan ná tali af þessum aðila“

Lögreglan vill ná tali af manninum.
Lögreglan vill ná tali af manninum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist ábending um mann sem hefur verið að elta börn eftir skólatíma í Fossvogsdal.

Í bréfi skólastjóra Fossvogsskóla til foreldra og forráðamanna í Fossvogsskóla segir að borist hafi ábendingar um að í Fossvogsdal sé maður sem hafi verið að elta börn eftir skólatíma. Hann hafi verið við bláa hoppubelginn, við skólann og við Víkina. Lýsingin á manninum er að hann sé snoðklipptur, reyki og tali ekki íslensku og hann sé oft á hlaupahjóli sem er gult og svart.

Passar við lýsinguna til foreldra

Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir að lögreglunni hafi borist ábendingar um mann sem hafi verið að elta drengi.

„Sú lýsing sem kom til okkar um þennan aðila passar við þá lýsingu sem kemur fram í bréfi til foreldra. Við erum að skoða þetta mál og við myndum gjarnan vilja ná tali af þessum aðila,“ segir Ásmundur.

Hann segir að eins og málið liggi fyrir núna séu ekki upplýsingar um lögbrot en reynt verði eftir fremsta megni að ná til mannsins eða hann gefi sig fram til lögreglu og taki samtalið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert