Hústökumaður hefur gert sig heimkominn við Sæmundargötu á Sauðárkróki og neitar að yfirgefa húsið sem var nýverið selt.
Feykir.is greinir frá en í umfjöllun miðilsins kemur fram að Þorsteinn Baldursson, fyrrum eigandi hússins, hafi nýverið selt það en eigi í mesta basli með að afhenda nýjum eigendum það þar sem fyrrverandi leigjandi neiti að yfirgefa það.
Hafði Þorsteinn boðið manninum að búa í hluta hússins fyrir ári síðan þar til hann fyndi sér nýtt heimili. Maðurinn hafði áður búið við hrörlegar aðstæður í bæjarfélaginu og Þorsteinn því boðið honum aðstöðu gegn vægu gjaldi.
Ávallt stóð til að selja húsið og gekk salan svo í gegn í júlí á þessu ári.
Haft er eftir Þorsteini í Feyki að maðurinn hafi verið upplýstur um söluferlið frá upphafi og að til stæði að afhenda húsið þremur mánuðum frá sölu þess.
Að því er Feykir greinir frá hefur fyrrverandi leigjandinn enn neitað að yfirgefa heimilið og sér Þorsteinn enga leið til að koma manninum út eins og stendur. Hann hafi verið í sambandi við félagsmálayfirvöld á Sauðárkróki, lögreglu og fasteignasala en alls staðar fengið sömu svör – að enginn geti stigið inn.
Í gær hóf Þorsteinn því að henda eigum mannsins út úr húsinu sjálfur til að geta afhent nýjum eigendum það. Greip maðurinn þá á það ráð að hringja á lögreglu sem kom á vettvang og stöðvaði Þorstein.
Er því fátt sem Þorsteinn sér í stöðunni að svo stöddu og segir að eina ráðið sem honum hafi verið bent á sé að útvega sér lögfræðing til að koma manninum út.