Maður sleginn í andlitið með golfkylfu

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðstoðar lögreglu var óskað vegna manns sem hafði slegið annan í andlitið með golfkylfu.

Sakborningurinn fannst heima hjá sér, þar sem lögregla skoraði á hann að koma út og var hann síðan handtekinn. Sá var vistaður í fangageymslu og vopnið, 5-tré, var haldlagt.

Sá sem varð fyrir árásinni hlaut minniháttar áverka í andliti, en kvaðst ekki nenna að fara á slysadeild til aðhlynningar, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 4 í nótt.

Rændi mann í bílakjallara

Óskað var aðstoðar vegna ógnandi manns í bílakjallara. Í ljós kom að hann hafði brotið framrúðu í bifreið og rænt peningum af þeim sem tilkynnti um málið með því að hóta honum barsmíðum með flösku.

Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Við öryggisleit á honum fundust ætluð fíkniefni og peningaseðlar, ætlað þýfi. Annar maður tók einnig þátt í ráninu með því að hóta tilkynnanda með hnífi, en sá var farinn af vettvangi og hefur ekki fundist.

Ljósmynd/Colourbox

Átta réðust á einn og stálu gleraugum

Óskað var aðstoðar vegna ráns þar sem átta menn réðust að einum með ofbeldi og stálu af honum gleraugunum.

Sá sem varð fyrir árásinni sagði mennina hafa kýlt sig í höfuðið, dregið sig niður á jörðina og sparkað í bak hans og hnakka. Flestir sakborninga eru óþekktir og allir ófundnir. Árásarþola var boðið á lögreglustöð til samtals við rannsóknarlögreglumann og var hann síðan hvattur til að leita sér heilbrigðisaðstoðar. Málið er í rannsókn.

Hljóp í gegnum garða íbúðarhúsa

Lögregla hugðist hafa afskipti af ökumanni bifreiðar sem síðan ók greitt í burtu og reyndi að komast undan. Hófst þá eftirför á eftir ökumanninum, sem stöðvaði loks bifreið sína og hljóp í burtu um garða íbúðarhúsa. Lögreglumenn hlupu manninn uppi, yfirbuguðu hann og handtóku. Hann reyndist ölvaður og undir áhrifum vímuefna, kókaíns. Þá fundust ætluð fíkniefni við leit í bifreiðinni sem hann hafði ekið. Tekið var blóðsýni úr manninum og var hann síðan vistaður í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert