„Meira og meira aðkallandi að bregðast við“

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að tryggja þurfi fjármuni sem fyrst til rannsókna vegna fyrirhugaðra jarðganga undir Siglufjarðarskarð. 

Í samtali við mbl.is segir ráðherrann að málið hafi ekki verið rætt innan ríkisstjórnarinnar en málefnið þekki hann ágætlega frá dögum sínum sem innviðaráðherra.

„Við höfum séð það á undanförnum misserum að það er að verða meira og meira aðkallandi að bregðast við og ég held að það geri sér allir grein fyrir því,“ segir Sigurður Ingi. 

Tekur hann þó fram að innviðaráðuneytið og Vegagerðin geti betur sagt til um hvenær þau skref verði mögulega tekin.

Tryggja þurfi 30 milljónir króna

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra var mættur til Siglufjarðar í síðustu viku á fund með bæjaryfirvöldum og virti hann fyrir sér veginn eftir ham­far­ir sem höfðu herjað á bæ­inn dagana á undan og ekki síður jarðsig og skriður á Siglu­fjarðar­vegi í svo­nefnd­um Al­menn­ing­um.

Í skriflegu svari til Morgunblaðsins sagði forsætisráðherrann að sterk rök væru fyrir að flýta rannsóknarvinnu vegna fyrirhugaðra ganga.

Var þá rætt um að tryggja þyrfti 30 milljónir til að hefja rannsóknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert