Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar sinntu á annan tug verkefna í hvassviðrinu sem gekk yfir Vestfirði og Norðurland vestra seinnipartinn í gær.
Vind tók á lægja á þessu svæði um kvöldmatarleytið og engin útköll voru hjá björgunarsveitum í gærkvöld og í nótt, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Hann segir að umfangsmesta aðgerð björgunarsveitanna hafi þó ekki tengst veðurhamnum en björgunarsveitir voru kallaðar út eftir hádegi í gær til að aðstoða göngumann í sjálfheldu á Kastárfjalli austan við Höfn í Hornafirði.
„Síðasta útkallið var um kvöldmatarleytið. Mesti veðurhamurinn var greinilega frá Steingrímsfirði og norður í djúp og teygði sig aðeins inn í Skagafjörðinn og á Tröllaskagann. Þetta var greinilega meiri hvellur en menn gerðu ráð fyrir,“ segir Jón Þór.
Hann segir að björgunarsveitir hafi þurft að sinna þó nokkuð mörgum verkefnum á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra en nokkuð var um foktjón á því svæði og þá var veðrið mjög slæmt á Vopnafjarðarheiðinni seinni partinn í gær og var henni lokað um tíma. Hann segir að ekki sé vitað til þess að að einhver óhöpp hafi átt sér stað.
Göngumaðurinn sem var í sjálfheldu á Kastárfjalli var orðinn nokkuð kaldur þegar björgunarsveitir komu að honum og þá hafði hann hruflast eitthvað í eggjagrótinu sem þar er.
„Mér skilst að maðurinn hafi borið sig nokkuð vel og hann gekk sjálfur með aðstoð björgunarsveitarfólks. Hann var kominn í sjúkrabíl rétt upp úr klukkan 21 í gærkvöld,“ segir Jón Þór.