Moldrok í hitanum á Vopnafirði

Eyþór Bragason hefur klárað heyskap eftir óþurrkasumar. Hann kallar eftir …
Eyþór Bragason hefur klárað heyskap eftir óþurrkasumar. Hann kallar eftir viðbrögðum Þjóðminjasafnsins vegna viðhalds á húsum mbl.is/Sigurður Bogi

Hitinn mældist 24,8 gráður á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði kl 9 í gærmorgun. Eyþór Bragi Bragason bóndi á Bustarfelli segir að þótt hitatölurnar séu háar þá sé hvasst og varla stætt í moldroki úr suðvestri eða vestri og við þær aðstæður njóti menn ekki hitans.

„Heyskap er lokið en hann gekk hægt. Þetta var leiðinlegt heyskaparsumar og við þurftum að vinna hratt þegar þurrkur gafst. Það kom sæmilegur kafli í júlí þar sem hitinn náði 27 gráðum hér á Bustarfelli. Síðan kom langur rigningarkafli, ekki hægt að þurrka hey og heyskap lauk ekki hér fyrr en í lok ágúst.“

Laxinn tók ekki á tímabili

Júnímánuður var kaldur með hreti og snjókomu fram í miðjan júní þannig að það var ekki nóg sprottið þegar loksins hlýnaði í júlí. Sama má segja af bændum á Norður- og Norðausturlandi þar sem hefur gengið hægt að ná heyjum sökum vætutíðar. „Veiðin í Hofsá var ágæt í sumar og nægur fiskur í ánni. Hún fór hins vegar seint af stað og var óveiðandi á tímabili vegna kulda og vatnavaxta. Þá tekur laxinn ekki,“ segir Eyþór

Smalamennska um helgina

Fyrstu göngur hefjast um næstu helgi frá föstudegi til sunnudags. Eyþór fer inn að Lindarárbala sem er skammt frá Sæmundarvatni, töluvert inn fyrir hringveg þar sem smalað er til móts við Jökuldælinga sem eru hinum megin við Gestreiðarstaðakvísl.

„Við smölum Kollseyrardal og Gestreiðarstaðadal á föstudegi, smölum áfram út Vopnafjarðarheiði á laugardag og komið að Bustarfelli á sunnudegi. Á sama tíma er Hauksstaðaheiði og Tunguheiði smöluð.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert