Ósáttir við kæru sveitarstjórnar

Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningnum síðastliðin 12 ár.
Landsvirkjun hefur unnið að undirbúningnum síðastliðin 12 ár. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég vildi ekki vera í þeirri stöðu að vera sá sem ýtir undir það að fólk og fyrirtæki fái ekki raforku,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samtali við Morgunblaðið og segir að alvarlegt sé að tefja virkjunarframkvæmdir sem ákveðnar hafi verið fyrir löngu, verið mörg ár í undirbúningi og allir hlutaðeigandi hafi verið meðvitaðir um.

Ráðherrann er ósáttur við þá ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfi sem Orkustofnun veitti Landsvirkjun fyrir vindorkuverið Búrfellslund.

Hann segir að þegar nýttar séu allar heimildir til að tefja verkefni sem er á lokametrunum muni það leiða til orkuskorts og ekki sé verið að vinna með þjóðinni í því að koma grænum orkumálum í betra horf.

„Það bera allir ábyrgð og hugmyndin með þessum kæruleiðum var ekki sú að menn næðu fram pólitískum markmiðum. Menn verða að tala um hlutina eins og þeir eru. Ef menn ganga fram með þessum hætti er verið að skaða þjóðina. Það er ekki flóknara en það,“ segir Guðlaugur Þór.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir ákvörðun sveitarstjórnar hafa komið á óvart. Búrfellslundur hafi verið í undirbúningi í á annan áratug og gengið í gegnum fjölþætt samráðsferli.

Hann segir mjög mikilvægt að undirbúningur framkvæmda hefjist í vetur. Ef það gerist ekki muni verkefnið frestast um eitt til tvö ár.

„Fari svo mun það hafa mjög neikvæð áhrif á samfélagið á næstu árum. Það er þörf fyrir aukna raforku á almenna markaðinum og ef ekki kemur inn ný raforka á næstu árum munum við sem samfélag lenda í vandræðum á árunum 2026 til 2027,“ segir Hörður.

Hann bendir á að Landsvirkjun hafi átt jákvæð samskipti við sveitarfélagið, allt þar til á lokastigum málsins.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert