Ráðherra segir stöðu Íslands áhyggjuefni

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir það áhyggjuefni að hlutfall innflytjenda sem telja sig tala íslensku sæmilega vel sé lægst á Íslandi miðað við önnur OECD-ríki.

Nefnir ráðherrann að úttekt OECD verði nýtt í stefnumótunarvinnu við gerð fyrstu heildstæðu stefnunnar í málefnum innflytjenda á Íslandi sem verður vonandi tekin fyrir á þingi í nóvember.

„Mér finnst þetta vera áhyggjuefni vegna þess að tungumálið er langstærsti lykillinn að því að fólk nái rótfestu í samfélaginu, hafi svipuð eða jöfn tækifæri og innfæddir, bæði þegar maður horfir til náms, þegar maður horfir til atvinnuþátttöku og þegar maður horfir til þess að fá fyrri menntun og reynslu sína metna og tækifæri til að fá starf við hæfi,“ segir ráðherrann.

Mbl.is greindi frá því á miðvikudag að hlut­fall inn­flytj­enda sem tal­ar tungu­mál lands­ins sem þeir búa í sé lægst á Íslandi af öll­um OECD-ríkjunum. Skýrist það ef­laust að ein­hverju leyti af þeirri staðreynd að ís­lensk yf­ir­völd verja hlut­falls­lega mun minna í tungu­mála­kennslu aðfluttra íbúa en ná­grannaþjóðir okkar.

Verður nýtt í stefnumótunarvinnu

Guðmundur segir að úttektin verði nýtt í stefnumótunarvinnu þegar kemur að gerð fyrstu heildstæðu stefnunnar í málefnum innflytjenda á Íslandi og gerir ráðherrann ráð fyrir að hún verði tekin fyrir á þingi í nóvember.

Guðmundur segir stefnuna vera til fimmtán ára og fylgja framkvæmdaáætlun með aðgerðum.

Nefnir hann að þá hafi einnig verið afgreidd á þingi í vor þingsályktun um íslenskt mál þar sem finna megi nokkrar aðgerðir sem snúa sérstaklega að tungumálakennslu og kunnáttu innflytjenda.

„Við tókum þá ákvörðun við gerð fjármálaáætlunar síðast að setja aukið fjármagn inn í inngildingu, þar með talið inn í skólana til þess að aðstoða nemendur sem eru börn innflytjenda,“ segir Guðmundur og bætir við að einnig hafi verið tekin ákvörðun um að setja aukið fjármagn í aukna íslenskukennslu fyrir fullorðna.

Fjölga þurfi kennurum sem kenna íslensku sem annað mál

„Ég sé fyrir mér að við getum stig af stigi aukið bæði fjármagn en líka þekkingu inni í kerfinu á hvernig við getum aukið tungumálaþekkingu og hæfni innflytjenda. Þar skiptir líka máli að við séum með námsgögn og menntamálaráðherra er núna búinn að boða frumvarp um ný heildarlög um gerð námsgagna. Þar eru áætlanir um að við getum gert betur í því sem snýr að innflytjendum líka eða að íslensku sem örmáli,“ segir ráðherrann.

Nefnir hann þá að einnig þurfi að fjölga kennurum sem hafa það sem sérsvið að kenna íslensku sem annað mál.

„Þetta eru svona stóru verkefnin sem eru fram undan. Við erum byrjuð á sumu og búin að tryggja fjármagn í sumt en verkefnið heldur áfram og ef ég tek þetta allt saman þá tel ég þetta vera eitt af stóru málunum okkar núna í íslenskri samtíð að koma í veg fyrir að stéttskipting aukist meira heldur en verið hefur,“ segir ráðherrann og bætir við.

„Við þurfum að sjá hana ganga til baka. Þessi stéttaskipting lýsir sér meðal annars í því að innflytjendur og börn innflytjenda standa hallari fæti heldur en innfæddir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert