Riftunin lögmæt – Stórfelldar vanefndir

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, var fyrirsvarsmaður bæjarins í málinu.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, var fyrirsvarsmaður bæjarins í málinu. Samsett mynd/mbl.is/Hákon Pálsson

Gerðardómur hefur úrskurðað að Kópavogsbær hafi verið í rétti þegar hann rifti samningi við verk­taka­fyr­ir­tækið Rizzani de Eccher eft­ir að upp komu gall­ar á verki verk­tak­ans við uppbyggingu á Kársnesskóla.

Ákvörðun um að rifta samn­ingi við verk­taka­fyr­ir­tækið í júní á síðasta ári var gagn­rýnd af bæj­ar­full­trú­um inn­an minni­hluta bæj­ar­stjórn­ar Kópa­vogs, meðal ann­ars sök­um þess að rift­un­in gæti kallað á skaðabóta­skyldu.

Nú er ljóst að ákvörðunin var lögmæt og er verktakafyrirtækinu gert að greiða málskostnað Kópavogsbæjar upp á rúmlega 44 milljónir króna.

Verktakinn sýndi ítrekað vilja- og getuleysi

Í dómnum segir að verktakinn hafi borið ábyrgð á stórfelldum og ítrekuðum töfum á verkframkvæmdunum við byggingu Kársnesskóla.

Þá kemur fram að verktakinn hafi sýnt ítrekað vilja- og getuleysi til að bæta úr viðvarandi skorti á mannafla og bæta úr gæðafrávikum.

„Jafnframt að veruleg frávik hafi verið í gæðum verksins sem lýstu sér fyrst og fremst í miklum raka og myglu, sem búið var að loka inni á stöðum í byggingunni sem ekki var hægt að hreinsa, nema með því að rífa upp allan frágang á þeim stöðum.

Í skilningi 3. mgr. 12. gr. verksamnings aðila var hér um að ræða bæði stórfelldar og ítrekaðar vanefndir af hálfu varnaraðila [verkatans], sem samkvæmt gögnum málsins sýndi ítrekað vilja- og getuleysi til að bæta úr viðvarandi skorti á mannafla og bæta úr gæðafrávikum, þótt honum hafi ítrekað verið gefinn kostur á því og krafinn um það,“ segir í úrskurðinum.

Oddviti Viðreisnar var á móti riftuninni

Eins og fyrr segir þá var riftunin ekki óumdeild og oddviti Viðreisnar í Kópa­vogi, Theo­dóra S. Þor­steins­dótt­ir, hafnaði því að veita bænum heimild til riftunar.

„Ég hafnaði heim­ild til rift­un­ar því eins og mál­um er háttað tel ég það betri kost að reyna til þraut­ar að viðhalda samn­ings­sam­bandi við verk­tak­ann á grund­velli verk­samn­ings,“ sagði Theodóra í samtali við Morgunblaðið í maí á síðasta ári.

Eini kosturinn í stöðunni var að rifta

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, sagði í samtali við mbl.is í síðasta mánuði að það hafi verið eini kosturinn í stöðunni að rifta samningnum.

„Húsið lá und­ir skemmd­um, lít­il sem eng­in fram­vinda var á verkstað og verktak­inn stóð ekki í skil­um við und­ir­verk­taka sem voru farn­ir af verkstað. Það kom aldrei til greina að bjóða skóla­börn­um upp á nýtt skóla­hús­næði sem ekki stæðust okk­ar gæðakröf­ur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert