Segja skólaeinkunnir barnanna ónothæfar

Reynt var að leggja síðustu samræmdu könnunarprófin fyrir árið 2021. …
Reynt var að leggja síðustu samræmdu könnunarprófin fyrir árið 2021. Það misfórst eins og árið þar áður. mbl.is/Golli

Enn eru alvarlegir annmarkar á frumvarpsdrögum mennta- og barnamálaráðherra um námsmat í grunnskólum og endanlegt afnám samræmdra könnunarprófa.

Þetta er mat Viðskiptaráðs Íslands.

Í umsögn ráðsins við frumvarpsdrögin segir að með fyrirhuguðum lögum verði áfram brotið gegn jafnræði barna þegar kemur að tækifærum þeirra til framhaldsnáms.

Þannig muni enn engin samræmd mæling liggja fyrir um grunnfærni á borð við lesskilning og reikning þegar grunnskólagöngu lýkur.

Ótækt að horfa til skólaeinkunna

Ráðið telur það ótækt að líta á skólaeinkunnir sem samræmdan mælikvarða á færni barna. 

Ákveðnum breytingum er þó fagnað, meðal annars þeim nýmælum að íslensku og stærðfræðipróf í matsferlinum, hinu nýja námsmati, verði skyldubundin á næsta skólaári, og að ráðherra verði skylt að birta reglulega upplýsingar um stöðu skólastarfs hér á landi.

Verði frumvarpið ekki að lögum ber ráðherra skylda til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf á næsta ári. 

Frá gömlu samræmdu lokaprófunum.
Frá gömlu samræmdu lokaprófunum. mbl.is/Eyþór Árnason

Matsferillinn tekið breytingum

Áform um breytingar á lögum um grunnskóla voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í sumar.

Þar var lagt til að ráðherra yrði veitt heimild til að leggja niður samræmd könnunarpróf til frambúðar.

Í staðinn myndi svokallaður matsferill leysa könnunarprófin af hólmi. 

Þegar matsferill var svo kynntur til leiks í samráðsgátt stjórnvalda á síðasta ári var honum lýst sem heildstæðu safni valfrjálsra og fjölbreyttra matstækja til stuðnings leiðsagnarmats í skólum.

Jafnframt var fullyrt að kennarar og skólar skyldu njóta trausts til að ákveða hvaða verkfæri matsferils þau myndu nota, fyrir hvaða nemendur, hvenær þau yrðu lögð fyrir og hve oft.

Allir skólar yrðu þó að meta námsárangur í stærðfræði og íslensku.

Stærðfræðinni flýtt

Í viðtali við Morgunblaðið í sumar sagði Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, að matsferill í íslensku yrði tilbúinn til notkunar á næsta skólaári, þ.e. 2025-2026, og að matsferill í stærðfræði yrði tilbúinn skólaárið 2026-2027.

Með frumvarpsdrögunum sem nú eru í samráðsgáttinni er aftur á móti fullyrt að matsferill í hvoru tveggja íslensku og stærðfræði verði tilbúinn árið 2025-2026.

Hefur Þórdís Jóna í kjölfarið viðurkennt í samtali við mbl.is að gefist hafi svigrúm til að vinna hraðar og að þess vegna hafi innleiðingu stærðfræðihlutans verið flýtt.

Ráðið telur að aðeins ætti að hafa opið fyrirlagningartímabil fyrir …
Ráðið telur að aðeins ætti að hafa opið fyrirlagningartímabil fyrir þann hluta prófsins sem er valfrjáls, en ekki fyrir skyldubundin samræmd próf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skyldubundnu námsmati flýtt um ár

Ekki lá heldur fyrir í sumar hvort og þá hvaða próf yrðu skyldubundin.

Í nýju frumvarpsdrögunum er aftur á móti kveðið á um að samræmt námsmat verði skyldubundið í íslensku og stærðfræði í 4., 6. og 9. bekk.

Athygli hefur vakið að það stangast á við þær upplýsingar sem ráðherra lét fyrst fylgja, þegar hann kynnti frum­varps­drög­in til um­sagn­ar.

Þeim var síðar breytt í skjóli nætur og engar skýringar fengist á því frá ráðuneytinu, þrátt fyrir umleitanir mbl.is.

Samt er um að ræða veigamiklar breytingar, þar sem innleiðingu skyldubundins námsmats er flýtt um heilt skólaár.

Óraunhæft að óska strax eftir könnunarprófum

Viðskiptaráð segist telja óraunhæft að gera kröfu um fyrirlagningu samræmdra könnunarprófa strax í vetur, í sömu mynd og árið 2021 þegar síðast var gerð tilraun til að leggja þau fyrir.

Eins og mbl.is hefur fjallað um misfórst fyrirlagning þeirra árin 2020 og 2021.

Ráðið kveðst þó gjarnan hefðu viljað sjá enn hraðari innleiðingu skyldubundnu prófanna, sem kveðið er á um í frumvarpsdrögunum, við lok þess skólaárs sem nú gengur í garð.

Þetta graf fylgdi umsögn Viðskiptaráðs.
Þetta graf fylgdi umsögn Viðskiptaráðs.

Ósamræmi í einkunnagjöf

Ráðið telur að skólaeinkunnir séu ónothæfar sem samræmdur mælikvarði á færni. Meðal annars er vísað í rannsókn Menntamálastofnunar frá árinu 2022.

Þar kom fram að ósamræmis gætti í hvernig námsmati væri háttað eftir skólum.

Áður hefur mbl.is greint frá því hvernig skólaeinkunnir hafi bólgnað meira á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu og þannig aukið á ójafnrétti gagnvart landsbyggðinni. 

Þá varpaði önnur rannsókn Menntamálastofnunar einnig ljósi að skólaeinkunnir hefðu hækkað jafnt og þétt frá því að samræmdu lokaprófin voru afnumin árið 2009.

Fyrir þá tíð litu framhaldsskólar til einkunna nemenda úr samræmdu prófunum við inntöku þeirra í skólana.

Viðskiptaráð hefur meðal annars lagt áherslu á að námsárangur hafi …
Viðskiptaráð hefur meðal annars lagt áherslu á að námsárangur hafi versnað frá afnámi samræmdu lokaprófanna árið 2009.

Námsárangurinn versnað

Frá því að samræmdu lokaprófin voru lögð niður hefur námsárangur íslenskra barna í PISA einnig versnað til muna.

„Að mati Viðskiptaráðs er ótækt að engin samræmd próf fari fram við lok grunnskólagöngu,“ segir í umsögn ráðsins.

„Til viðbótar við framangreint brot á jafnræði þegar kemur að tækifærum til framhaldsnáms eru slík próf eina leiðin til að meta árangur grunnskólastigsins í heild en ekki einungis hluta skólagöngunnar.“

Einkunnir barna hafa hækkað jafnt og þétt frá því að …
Einkunnir barna hafa hækkað jafnt og þétt frá því að samræmdu lokaprófin voru afnumin. mbl.is/Hari

Aðalatriðið að prófið sé samræmt

Viðskiptaráð kveðst fylgjandi sjónarmiðum ráðherra um mikilvægi þess að nýta niðurstöður samræmdra mælinga jafnóðum í skólastarfi, sem matsferillinn mun koma til með að nýtast í. Aftur á móti þurfi slík verkfæri að vera til viðbótar við samræmt námsmat við lok grunnskóla.

Ráðið leggur því til að skyldubundið samræmt námsmat í íslensku og stærðfræði fari einnig fram við lok grunnskólagöngu.

Til að mynda væri hægt að bjóða upp á viðbótarpróf í 10. bekk eða að leggja próf matsferilsins frekar fyrir í 4., 7. og 10. bekk í stað 4., 6. og 9. bekk. 

„Viðskiptaráð gerir ekki athugasemdir við að prófum sem liggja eiga til grundvallar inntöku í framhaldsskóla sé fjölgað til að mæta sjónarmiðum um að fá próf geti gefið ófullkomna mynd af raunfærni nemenda,“ segir ráðið.

„Þeim sjónarmiðum mætti til dæmis mæta með samræmdum prófum við lok hverrar annar á unglingastigi. Aðalatriðið er að námsmat sem lagt er til grundvallar inntöku sé samræmt – ekki fjöldi prófa.“

Ráðið telur að skólaeinkunnir séu ónothæfar sem samræmdur mælikvarði á …
Ráðið telur að skólaeinkunnir séu ónothæfar sem samræmdur mælikvarði á færni og vísar til rannsóknar á vegum Menntamálastofnunar. mbl.is/Hari

Vilja fjarlægja undanþáguheimildir

Þá eru gerðar athugasemdir við heimildir til að veita undanþágur sem finna má í frumvarpsdrögunum. 

Annars vegar þar sem kveðið er á um heimild skólastjóra til að veita undanþágur frá fyrirlagningu skyldubundinna samræmdra prófa og hins vegar heimild ráðherra til að gera slíkt hið sama vegna óviðráðanlegra aðstæðna.

Að mati ráðsins ætti að fjarlægja báðar heimildir. Samþykki Alþingis ætti að þurfa til að veita undanþágu frá samræmdu námsmati rétt eins og raunin er með almenna skólaskyldu.

Þá telur Viðskiptaráð að skerpa þurfi á orðalagi sums staðar í frumvarpsdrögunum.

„Setningar eins og „ekki fer alltaf saman að leggja áherslu á einstaklingsmiðað nám en nota sama matstæki fyrir alla nemendur“ ættu til dæmis einvörðungu að eiga við um valfrjálst samræmt námsmat, en ekki skyldubundið samræmt námsmat. Þá er stundum talað um próf en stundum um matstæki. Þetta þyrfti að skýra betur, til dæmis með því að tala um samræmd próf þegar rætt er um skyldubundna hlutann en matstæki þegar rætt er um valfrjálsa hlutann.“

Skyldubundin samræmd próf á sama tíma

Loks telur ráðið að aðeins ætti að hafa opið fyrirlagningartímabil fyrir þann hluta prófsins sem er valfrjáls, en ekki fyrir skyldubundin samræmd próf. 

Halda ætti þau á sama tíma til að þau séu sannarlega samræmd.

„Viðskiptaráð hvetur ráðherra til að taka tillit til framangreindra athugasemda við endanlega útfærslu frumvarpsins. Að mati ráðsins er grundvallaratriði að tryggja jafnræði meðal nemenda óháð bakgrunni eða búsetu og á sama tíma bæta og skýra yfirsýn yfir árangur og gæði skólastarfs. Við fögnum áhuga á breiðara samráði af hálfu ráðuneytisins og lýsum okkur reiðubúin til frekari aðkomu eftir því sem ráðuneytið óskar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert