Sérsveitin með viðbúnað á Ljósanótt

Ljósanótt var formlega sett í gær.
Ljósanótt var formlega sett í gær. Ljósmynd/Reykjanesbær

Lögreglan á Suðurnesjum er með aukinn viðbúnað á Ljósanótt í Reykjanesbæ um helgina en hátíðin var formlega sett í gær.

Skipuleggjendur Ljósanætur hafa brýnt fyrir foreldrum að ræða við börn sínu um hættur vopnaburðar. Auk þess sem viðbúnar lögreglu verður meiri í ljósi skelfilegra atburða á Menningarnótt í Reykjavík þar sem 17 ára stúlka var stungin til bana og fregna um aukinn vopnaburð barna og ungmenna.

Samstarf við félagsmiðstöðvar

Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir að um 40 lögreglumenn verði á vakt og til viðbótar verði fleiri gönguhópar og lögreglumenn úr Reykjavík og frá sérsveitinni.

„Við fáum aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra og frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þá erum við í samstarfi við félagsmiðstöðvarnar sem þekkja ungmennin og fólk frá þeim verður með okkur í gönguhópum,“ segir Bjarney við mbl.is.

Allt gert til að tryggja öryggi

Bjarney segir að gæslan verði góð og það verði ekki létt af henni fyrr en ástæða sé til. Hún segir að bílar frá sérsveit ríkislögreglustjóra verði á svæðinu til taks og menn frá henni verði tilbúnir að bregðast við ef þurfa þyki.

„Staðarlögreglan verður mjög sýnileg á hátíðarsvæðinu bæði með lögreglumönnum úti á götum á bílum og það verður allt gert til að tryggja öryggi fólks,“ segir Bjarney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert