Sjö sækja um tvær stöður

Ljósmynd/Colourbox

Sjö hafa sótt um tvö embætti héraðsdómara á landsbyggðinni, en dómsmálaráðuneytið auglýsti embættin laus til umsóknar í Lögbirtingablaðinu 16. ágúst.

Annars vegar er um að ræða embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Austurlands sem skipað verður í frá 1. nóvember 2024. Hins vegar embætti dómara sem mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Vestfjarða en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólasýslunnar.

Skipað verður í það embætti hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara lýkur störfum, að því er fram kemur á vef dómsmálaráðuneytisins. 

Allir sækja um bæði embættin

Umsóknarfrestur rann út 2. september og eru umsækjendur eftirtaldir, en allir sækja þeir um bæði embættin:

• Guðfinnur Stefánsson aðstoðarmaður héraðsdómara,
• Hákon Þorsteinsson lögfræðingur,
• Oddur Þorri Viðarsson lögfræðingur,
• Ólafur Egill Jónsson aðstoðarmaður héraðsdómara,
• Sólveig Ingadóttir aðstoðarmaður héraðsdómara,
• Sverrir Sigurjónsson lögmaður,
• Valborg Steingrímsdóttir lögfræðingur.

Þá segir, að umsóknir hafi verið afhentar dómnefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert