Stjórnvöld brugðust börnunum með aðgerðunum

Snemma lá fyrir að aðgerðir stjórnvalda gegn faraldri kórónuveirunnar myndu hafa alvarleg áhrif á andlega líðan barna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varaði við þessu. Stjórnvöld hér á landi brugðust þó ekki við.

Þetta segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

Grímur er gestur Spursmála og fer yfir þetta mál ásamt Tryggva Hjaltasyni, formanni hugverkaráðs, sem mikið hefur fjallað um veikburða stöðu drengja í íslensku menntakerfi.

Sett í samhengi við bankasölu

Grímur bendir á að stjórnvöld hafi varið 300 milljónum til málaflokksins þegar liðið var á faraldurinn, en að það hafi verið of lítið. Setur hann aðgerðir þessar í samhengi við að ráðgjöfum voru greiddir 3 milljarðar króna vegna söluferlis Íslandsbanka.

Segir hann það ekki fela í sér gagnrýni á bankasöluferlið sjálft, heldur aðeins sett fram til þess að setja hluti í samhengi og þá forgangsröðun sem ríki í samfélaginu.

Bendir Grímur á að lítill sem enginn fókus hafi verið á geðheilbrigðismál í faraldrinum.

„Ég man að ég var einu sinni boðaður í þetta sett hjá Landlækni, átti að koma til að tala um þetta, á þessa endalausu opnu blaðamannafundi. Klukkutíma áður var ég hins vegar afboðaður.“

Af hverju?

„Ég veit það ekki. Það var bara einhver annar sem kom þarna.“

Ráðherrar höfðu ekki áhuga

Skipt meira máli?

Það er margt sem skiptir máli. Það var nefnilega margt sem skipti máli. En ég man líka eftir fundi með ráðherrum á þessum tíma, og ég hef opinberað það og sagt það og það var Zoom-fundir þar sem við vorum öll að tala um þetta og það var slökkt á ákveðnum skjáum. Þá sá maður að þetta var ekkert í fyrsta sæti,“ útskýrir Atli.

Tryggvi tekur undir með Grími en segir að ekki megi heldur draga úr ábyrgð foreldra í ástandi eins og því sem skapaðist.

Viðtalið við Atla og Tryggva má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert