Ekki hægt að fullyrða um óöryggi

Í svari Umhverfisstofnunar segir að stofnunin hafi fengið upplýsingar um …
Í svari Umhverfisstofnunar segir að stofnunin hafi fengið upplýsingar um alvarleg atvik tengd notkun á snyrtivörum, en þau hafi ekki tengst vörum sem grunur leiki á að séu komnar af gráum markaði. Ljósmynd/Colourbox

Ekki er hægt að fullyrða að snyrtivörur sem fengnar eru af gráum markaði séu óöruggar fyrir neytendur. Hugsanlega er þó aukin áhætta ef aðfangakeðjur eru langar eða óljósar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skriflegu svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn mbl.is um snyrtivörur af gráum markaði sem seldar eru á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur eftirlit með að snyrtivörur á markaði uppfylli efnalög og snyrtivörureglugerð.  

Í viðtali við mbl.is um liðna helgi lýsti Kar­in Kristjana Hind­borg, eig­andi snyrti­vöru­versl­un­ar­inn­ar Nola, áhyggjum sínum af snyrtivörum sem fengnar eru af gráum markaði. Hún sagði það geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir neytendur að kaupa vörur sem ekki koma frá viðurkenndum dreifingaraðila og kallaði eftir auknu eftirliti. 

Í svari Umhverfisstofnunar segir að stofnunin hafi fengið upplýsingar um alvarleg atvik tengd notkun á snyrtivörum, en þau hafi ekki tengst vörum sem grunur leiki á að séu komnar af gráum markaði. 

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með snyrtivörur á markaði uppfylli efnalög og …
Umhverfisstofnun hefur eftirlit með snyrtivörur á markaði uppfylli efnalög og snyrtivörureglugerð. mbl.is/mbl.is

Fá margar ábendingar

Á síðustu árum hefur Umhverfisstofnun borist töluvert margar ábendingar um snyrtivörur vegna vafa um að þær uppfylli skilyrði snyrtivörureglugerðar. Slíkar ábendingar geta til dæmis varðað innihaldsefni og merkingar, og varðað bæði innlenda og erlenda framleiðslu. 

„Almennt er því ekki um sérstök tengsl við gráan markað að ræða hvað ábendingar varðar. Í ár hefur stofnunin þó fengið spurningar og ábendingar sem gætu tengst gráum markaði með snyrtivörur,“ segir í svari stofnunarinnar.

Hafa stöðvað vafasamar vörur í tollinum

Umhverfisstofnun hefur brugðist við þegar vafi hefur leikið á um að snyrtivörur séu á markaði með löglegum hætti.

„Vörur sem grunur hefur leikið á að komi af gráum markaði hafa verið stöðvaðar í tolli og Umhverfisstofnun hefur unnið með tollstjóraembættinu varðandi slíkar vörur. Þegar komið hafa upp tilvik við eftirlit þar sem vafi leikur á að snyrtivara sé á markaði með löglegum hætti hefur Umhverfisstofnun brugðist við. Oft velja innflutningsaðilar/söluaðilar sjálfir að taka vöru af markaði ef vafi leikur á um uppruna eða öryggi vöru en einnig hefur stofnunin heimildir til að stöðva markaðssetningu vara sem eru ekki löglegar á markaði.“

Þá segir í svari stofnunarinnar að það sé stöðugt til skoðunar með hvaða leiðum sé hægt að auka eftirlit með snyrtivörum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert