„Enginn alvarlega slasaður“

Það var góð stemning á Ljósanótt í Reykjanebæ í gærkvöld.
Það var góð stemning á Ljósanótt í Reykjanebæ í gærkvöld. Ljósmynd/Reykjanesbær

Lögreglunni á Suðurnesjum bárust þrjár tilkynningar um líkamsárásir á Ljósanótt í Reykjanesbæ í gærkvöld.

Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir við mbl.is að ekki hafi verið um alvarlegar líkamsárásir að ræða og enginn hafi verið handtekinn.

„Þetta voru mál sem tengdust ölvun. Það var ekkert um hnífa eða þess háttar og það er enginn alvarlega slasaður,“ segir Bjarney.

Hún segir að þrátt fyrir mikinn eril hafi gengið vel en lögreglan er með aukinn viðbúnað á Ljósanótt og nýtur til að mynda liðsinnis sérsveitarinnar í ljósi skelfilegra atburða á Menningarnótt fyrir hálfum mánuði þar sem 17 ára stúlka var stungin til bana.

Bjarney segir að enn fleiri lögreglumenn verði á vaktinni í kvöld en gera má ráð fyrir því að allt að 20 þúsund manns verði á svæðinu. Ljósanótt nær hápunkti í kvöld með flugeldasýningu en fjölmargir viðburðir verða í bænum í allan dag og langt fram á nótt en hægt er að nálgast ítarlega dagskrá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert