Hitinn gæti náð 20 stigum í hnjúkaþey

Frá Vopnafirði þar sem hitinn gæti náð allt að 20 …
Frá Vopnafirði þar sem hitinn gæti náð allt að 20 stigum í dag. mbl.is/Jón Sigurðsson

Hitinn gæti náð allt að 20 stigum í hnjúkaþey fyrir austan í dag en það birtir víða til á landinu í dag.

Það verður suðvestan 5-15 m/s, hvassast norðvestan til. Það verður skýjað og lítilsháttar væta sunnan- og vestanlands, en birtir til þegar kemur fram á daginn. Hitinn verður 10-18 stig og verður hlýjast norðaustan og austanlands þar sem verður léttskýjað. Það lægir í kvöld og búast má við stöku skúrum sunnantil.

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að það hafi dregið úr hvassviðrinu norðvestantil á landinu, þó er ennþá strekkings eða allhvöss suðvestanátt á þeim slóðum en lægir þar í kvöld.

Snjókoma til fjalla í næstu viku

Á morgun gengur í norðan kalda eða strekking, fyrst norðvestantil fyrir hádegi, en sunnan- og austanlands eftir hádegi. það kólnar í veðri, einkum fyrir norðan. Dálítil væta verður í flestum landshlutum og ekki ólíklegt að gráni í fjöll fyrir norðan.

Norðanáttin verður svo ríkjandi í næstu viku með rigningu eða slyddu fyrir norðan og snjókomu til fjalla. Það dregur úr vindi og úrkomu á miðvikudag en þá aukast líkur á næturfrosti enda kalt loft ennþá yfir landinu.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert