Íslendingar í meirihluta

Brotamennirnir koma víða að þótt meirihluti sé Íslendingar.
Brotamennirnir koma víða að þótt meirihluti sé Íslendingar. Ljósmynd/Colourbox

Íslendingar eru í meirihluta þeirra sem dæmdir hafa verið fyrir fíkniefna- og kynferðisbrot hér á landi síðustu ár. Aftur á móti var meirihluti þeirra sem dæmdir voru fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot eins og þau eru skilgreind í 174. grein almennra hegningarlaga árin 2019-2023 ekki með íslenskt ríkisfang.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn um ríkisfang þeirra sem dæmdir hafa verið fyrir ýmis brot hér á landi síðustu ár.

Á tímabilinu 2019-2023 voru 189 einstaklingar dæmdir fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot hér á landi, þar af báru flestir íslenskt ríkisfang eða alls 64.

Næstflestir voru með pólskt ríkisfang, alls 26, og þar á eftir spænskir ríkisborgarar sem voru 19 talsins. Evrópubúar voru þá í miklum meirihluta brotamanna en aðeins 21 var frá landi utan álfunnar.

Mikill minnihluti utan Evrópu

Þá kemur fram í svarinu að á sama tímabili hafi 1.717 einstaklingar hlotið dóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni en þar voru Íslendingar í miklum meirihluta eða alls 1.367 talsins.

Næst á eftir komu þeir með pólskt ríkisfang en þeir voru 149. Þá voru 39 frá Litáen dæmdir fyrir fíkniefnabrot og 25 frá Albaníu. 23 komu frá löndum utan Evrópu.

Í fyrirspurninni var einnig spurt út í ríkisfang þeirra sem hafa hlotið dóm fyrir kynferðisbrot síðustu ár. Í svarinu kom fram að 225 einstaklingar hefðu verið dæmdir fyrir slík brot á tímabilinu 2019-2023 en þar voru íslenskir ríkisborgarar í miklum meirihluta eða alls 178 talsins. Næstflestir voru með pólskt ríkisfang eða 14 einstaklingar.

61 dæmdur fyrir nauðgun

Af þeim 225 sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot var 61 dæmdur fyrir nauðgun, varðar það 194. grein almennra hegningarlaga. 50 þeirra voru Íslendingar, fjórir Pólverjar og tveir voru frá Írak.

Í fyrirspurninni var einnig spurt út í ríkisfang þeirra sem hafa á sama tímabili verið ákærðir fyrir manndráp og líkamsmeiðingar, brot gegn frjálsræði manna og brot gegn ákvæðum auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga en þær upplýsingar lágu ekki fyrir í dómsmálaráðuneytinu.

Umfjöllunin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert