Með gasskammbyssu, skotfæri og hníf í fórum sínum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöld …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglumenn við almennt umferðareftirlit stöðvuðu ökumann bifreiðar í miðbæ Reykjavíkur. Við afskipti blasti skefti á skotvopni við lögreglumönnum og var ökumaðurinn því samstundis tekinn tökum og hendur hans fjötraðar með handjárnum.

Reyndist skotvopnið vera gasskammbyssa. Við frekari leit í bifreiðinni fundust meint fíkniefni, stór hnífur og skotfæri í gasskammbyssuna. Aðilinn, sem var einnig ölvaður við akstur, var vistaður í þágu rannsóknar málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í nótt.

Með höggvopn og fíkniefni

Lögreglunni barst tilkynning um aðila sem hafði valdið eignaspjöllum á hóteli í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöld.

Þegar lögreglan kom á staðinn var töluverður hópur í kringum aðilann og æsingur. Aðilinn brást illa við afskiptum lögreglu og streittist á móti handtöku. Við öryggisleit á aðilanum fannst höggvopn og nokkuð af fíkniefnum og var hann vistaður fangaklefa í þágu lögreglunnar.

Einn aðili handtekinn eftir að hafa ítrekað óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Með öllu óviðræðuhæfur sökum ölvunarástands og hann því vistaður í fangaklefa þar til af honum rennur.

Lögregla var send með sjúkraliði vegna reiðhjólaslyss. Aðili var fluttur á slysadeild til aðhlynningar en talið er að hann hafi viðbeinsbrotnað.

Átta ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða ávana- og fíkniefna. Þá reyndust þrír þeirra einnig sviptir ökuréttindum og einn með talsvert af fíkniefnum í sölupakkningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert