Opna kirkjudyrnar og minnast Bryndísar Klöru

Lindakirkja opnar dyr sínar fyrir þá sem minnast vilja Bryndísar …
Lindakirkja opnar dyr sínar fyrir þá sem minnast vilja Bryndísar Klöru. Ljósmynd/Guðmundur Karl Brynjarsson

Séra Guðni Már Harðarson, sóknarprestur í Lindakirkju, segir að starfsfólk kirkjunnar hafi fundið fyrir mikilli þörf til að skapa rými fyrir fólk til að koma saman og minnast Bryndísar Klöru sem lést eftir hnífstunguárás á menningarnótt í lok ágúst.

Lindakirkja mun í dag opna dyr sínar fyrir almenningi sem vill minnast Bryndísar en liðnar eru tvær vikur frá voðaverkinu. Minningarstundin mun standa frá 12 til 17.

Myndum sem vinir og fjölskylda Bryndísar Klöru hafa safnað saman verður varpað upp og eftirlætis tónlist hennar spiluð. Ekkert verður um talað mál heldur er stundin hugsuð þannig að allir sem vilja geta komið og tendrað kerti í minningu Bryndísar og átt hljóða stund í kirkjunni.

Vinkonurnar völdu uppáhalds tónlist Bryndísar

„Við vildum og finnum mikla þörf fyrir að fólk fái rými og stað til að tjá samhug sinn og sorg. Þess vegna opnum við Lindakirkju en við gerum það í samráði við foreldra Bryndísar, vini og vinkonur og foreldra þeirra,“ segir Sr. Guðni Már í samtali við mbl.is og bætir við:

„Þau hafa tekið saman mikið af fallegum myndum af Bryndísi Klöru sem verður varpað upp á vegg kirkjunnar. Svo eru vinkonur hennar búnar að finna fallega og rólega tónlist sem að henni fannst skemmtileg og góð og hún verður látin rúlla ljúft á meðan.“

„Þetta er til að skapa rými til að kveikja á kerti, senda bænir og ljós til foreldra hennar og eiga stund í kirkjunni,“ segir Guðni.

Biðla til fólks að skila inn hnífum

Í tilkynningu kirkjunnar um minningarstundina kemur einnig fram að Minningarsjóður Bryndísar Klöru hafi verið stofnaður en forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, er verndari hans.

„Sjóðurinn mun styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni. Sjóðurinn mun einbeita sér að fræðslu, rannsóknum og vitundarvakningu til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig,“ segir í tilkynningunni.

Þá er fólk hvatt til að heiðra minningu Bryndísar með því að „velja líf en ekki hníf“ og er biðlað til allra sem bera hnífa á sér að skila þeim til lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka