„Starfsfólk í móttökunni hefur alveg verið með manneskju á línunni sem er í verulegri sjálfsvígshættu en hefur tekist með samtalinu að koma manneskjunni úr þeirri hættu,“ segir Ellen Calmon, framkvæmdastýra Píeta, þegar hún útskýrir þau verkefni sem starfsmenn samtakanna fást við.
Píeta eru fyrst og fremst meðferðarsamtök, með starfleyfi frá landlæknisembættinu, þar sem starfa sálfræðingar, iðjuþjálfar, félagsráðgjafar og læknir. Píeta veitir lágþröskuldaþjónustu og gjaldfrjálsa meðferð gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.
Gulur september er sprottinn upp af alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga sem er 10. september ár hvert og alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum 10. október. Þetta er vitundarvakning.
Um 600 nýir skjólstæðingar leita til Píeta árlega. Starfsmenn samtakanna taka yfir 200 viðtöl á mánuði en þangað leita konur til jafns við karla. Hins vegar eru þrisvar sinnum fleiri karlar en konur sem svipta sig lífi. „Sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karlmanna.“
Ellen er kennaramenntuð og hefur starfað hjá ADHD samtökunum, Barnaheillum og skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar auk þess að hafa gegnt formennsku ÖBÍ um tíma. Hún er því vel meðvituð um hvað er að eiga sér stað meðal æskunnar í samfélaginu.
„Allar mælingar sýna að börnunum okkar líður verr.“ Ellen segir vandann margþættan og telur upp atriði sem eiga þátt í versnandi líðan barna eins og hraðann í samfélaginu og að foreldrar gefi börnum sínum ekki nægan tíma. Hún nefnir einnig skjánotkun og samfélagsmiðla.
„Það er aftenging við þetta mennska.“
Þriðjudaginn 10. september er gulur dagur. Þá eru fyrirtæki, einstaklingar og skólar hvattir til þátttöku t.d. með því að starfsmenn og nemendur mæti í gulu. Þann dag heldur starfsfólk Píeta austur á Egilsstaði til að kynna starfsemina en Ellen segir áhuga á að opna þar útibú. Nú þegar eru Píeta til staðar á Ísafirði, Akureyri og Húsavík.
Ellen segir samtökin þjónusta allt landið, allan sólahringinn, árið um kring. Neyðarsími samtakanna er 552-2218.
Ítarlegra viðtal má finna í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
Að lokum má benda á að dagskrána fyrir gulan september má nálgast á síðu landlæknisembættisins, www.island.is/landlaeknir.