„Við erum öll harmi slegin“

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands. mbl.is/Eyþór Árnason

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, segir að ráðast verði að rótum vandans vegna þeirra sorglegu atburða sem hafa átt sér stað í samfélaginu undanfarið.

Í færslu á Facebook-síðu sinni tjáir Halla sig um andlát Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést af sárum sínum eftir hnífstunguárás á Menningarnótt.

„Við erum öll harmi slegin vegna skelfilega sorglegra atburða sem átt hafa sér stað í okkar samfélagi og eru óbærilegir og ólíðandi. Við verðum að ráðast að rótum vandans - saman! Hvert og eitt okkar hefur þar hlutverk. Ég hef átt fjölda funda og samtala undanfarnar vikur um nauðsynlegar úrbætur í kerfinu - og þær eru sem betur fer margar á borðinu,“ skrifar Halla í færslu sinni.

Kerfisbreytingar duga ekki til

Halla segir að kerfisbreytingar dugi ekki til. Það þurfi að vinna saman að því að gera kærleikann að vopninu í samfélaginu.

„Þetta er ákall og ósk foreldra Bryndísar Klöru og um það hefur verið stofnaður minningarsjóður sem ég er verndari fyrir. Ég biðla til ykkar í dag um að leggja það sem þið getið af mörkum:
1. Takið utanum ykkur sjálf og börnin ykkar. Kyrrðarstund í Lindakirkju í dag er góður staður til slíks og matarborðið heima er það líka. Verum saman og tölum saman (og ekki bara í gegnum skjái og samfélagsmiðla, þó ég nýti þennan með trega til þess að biðla til ykkar)
2. Leitið leiða til að vera sjálf "riddarar kærleikans" - veljið orðin ykkar vel - talið af mennsku og virðingu við og um aðra. Réttið út hönd þar sem þið vitið að þess er þörf.
3. Leggið minningarsjóði Bryndísar Klöru til það sem þið eruð aflögufær um. Sjóðurinn mun styðja við fræðslu, rann­sókn­ir og vit­und­ar­vakn­ingu til að koma í veg fyr­ir að slík­ar hörm­ung­ar end­ur­taki sig!!!!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert