„En pabbi var þarna allan tímann“

Ari Gísli stendur vaktina í einni síðustu fornbókabúð Reykjavíkur.
Ari Gísli stendur vaktina í einni síðustu fornbókabúð Reykjavíkur. mbl.is/Brynjólfur Löve

Miðbær Reykjavíkur hefur tekið miklum breytingum í áranna rás, ekki síst eftir ferðamannaflauminn, þar sem ótal hefðbundnar verslanir og þjónustufyrirtæki hafa mátt þoka eða leggja upp laupana fyrir lundabúðum og veitingastöðum.

Ekki þó allar, því fornbókaverslunin Bókin er enn á sínum stað á horni Klapparstígs og Hverfisgötu, en þar innan um völundarhús bókahillna og bókabunka ræður ríkjum Ari Gísli Bragason, í mögulega síðustu fornbókabúðinni í bænum.

„Jú, ætli við séum ekki síðasta fornbókabúðin af gamla skólanum, en uppi í Ármúla er þó Bókakaffið hans Bjarna Harðarsonar, sem var opnað fyrir ekki mörgum árum; þar er eitthvað af gömlum bókum í bland.

En þegar ég var í Menntaskólanum í Reykjavík – tímaskynið er ekki alveg í lagi hjá mér, mér finnst að það sé stutt síðan – fyrir rúmum 30 árum, þá voru fimmtán fornbókabúðir í Reykjavík.

Svo hættu þessir gömlu karlar og konur og það tók enginn við, svo þetta minnkar smám saman. En pabbi var þarna allan tímann …“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni á Spotify:

Feðgar í fornbókum

Pabbi? Segðu okkur deili á pabba.

„Pabbi er Bragi Kristjónsson, bóksali, blaðamaður og fjölfræðingur. Hann var allan þennan tíma, fyrst með Bókabúð Braga Kristjónssonar og svo Bókavörðuna, sem var í Hafnarstræti, Skólavörðustíg, Laugavegi og endaði uppi á Vesturgötu 17, en þar sigldi þetta eiginlega í strand, svona 1997-8.

En 1997 hefur Gunnar heitinn Valdimarsson samband við mig, en hann og Snær Jóhannsson voru með Bókina, elstu fornbókaverslunina, sem stofnuð var 1964. Þá voru þeir eiginlega að gefast upp á Grundarstíg. Bókin var stórveldi á þeim dögum sem menn voru að slást á bókauppboðum um árganga af Sjómannablaðinu Ægi.“

Ari bætir við að Bókin hafi á sínum tíma verið stofnuð af kommúnistum, sem eins konar varnarbandalag gegn borgaralegum fornbókabúðum, en vígstaðan önnur eftir fall Múrsins og það allt.

Bókahillur, bókastaflar og allskyns munir taka á móti viðskiptavinum.
Bókahillur, bókastaflar og allskyns munir taka á móti viðskiptavinum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Endalok stríðsins?

Byltingarsinnaðir fornbókasalar?!

„Jájá. Svo fór ég að hitta hluthafahópinn, sem hafði samþykkt kauptilboð hjá mér, þá voru þetta tuttugu gamlir karlar, sómamenn, og við gengum frá samningnum í fínum hádegisverði. Í lok hans tekur einn þeirra til máls og þakkar mér fyrir kaupin, en bætir því svo við að nú sé „allt í góðu á fornbókamarkaðnum“. Þetta var hin stóra sáttargjörð.“

Hann bætir því við að Bragi faðir hans hafi auðvitað alltaf verið í samkeppni við þá, en ætli það megi ekki eins hafa kaupin á Bókinni til marks um endanleg lok kalda stríðsins.

Um aldamótin var Bókin svo flutt í núverandi húsnæði og þeir feðgarnir voru þar saman í rekstrinum þar til Bragi dró sig í hlé fyrir aldurs sakir um áratug síðar.

„Ég hef verið hérna einn síðan.“

Fljótt á litið má ætla að ekkert skipulag sé í …
Fljótt á litið má ætla að ekkert skipulag sé í búðinni en svo er ekki. mbl.is/Brynjólfur Löve

Þráhyggjan bokin.is

En þetta er fjölskyldufyrirtæki enn þá?

„Það má segja það. Ragnheiður Björk dóttir mín, sem býr í London, hefur hjálpað mér á sumrin og konan Sigríður Hjaltested aðeins, en ég hef verið einn að mestu leyti. Svo hef ég fengið stráka í hálft starf annað slagið til þess að hjálpa mér að byggja þráhyggjuna bokin.is en það er netbókaverslun, sem kannski snýst ekki síður um skrásetningu þeirra bóka sem hér fara um og eru til, það er heimild í því. Það er ekki víst að þessi verslun verði hér til eilífðar.“

Hvenær ákvaðstu þetta?

„Það er nú orðið svolítið síðan. Þegar ég var að kaupa búðina, þá sagði Gunnar í Bókinni við mig: „Ari minn, netið er „in“,““ segir Ari og bætir við að netverslunin sé auðvitað eins konar útstillingargluggi fyrir búðina, sem dragi marga inn.

Þetta er mjög óvenjuleg verslun. Það eru alls kyns munir í gluggunum, plaköt og tímaritaforsíður og fleira, en fyrir innan blasa við bókahillur, bókastaflar og hálfhrundir bunkar; stólar á gólfinu sem enginn sest í því í þeim eru líka bækur, þetta er ólíkt öllu öðru?

„Jújú og nú orðið koma útlendingar óhikað hingað inn að skoða sig um og kaupa orðið töluvert af bókum, þótt þeir skilji ekkert hvað í þeim stendur. Og skilja ekki allir hvað þetta sé, spyrja hvort þetta sé bókasafn eða félagasamtök, sem ég tek alveg undir að það sé.“

Já, er það ekki? Stundum þegar maður kíkir hingað inn, þá er eiginlega klúbbstemning hérna, þar sem maður hittir iðulega sömu bókabéusana.

„Jú, það er talsvert stór hópur fastakúnna, sjálfsagt um þúsund manns, sem koma nokkuð reglulega yfir árið. Og svo er auðvitað heilmikil veisla hér á Þorláksmessu með snafs og svona í boði fram eftir kvöldi. Það er fastur punktur fyrir marga að koma hingað þá.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert