Hvött til að gerast geimfarar eða fá sér stærri brjóst

Mikill munur er á því efni sem haldið er að kínverskum börnum á TikTok og því sem börn á Vesturlöndum eru mötuð á. Hnífaárásir eru hluti af áróðrinum sem dynur á síðarnefnda hópnum.

Hraðar samfélagsbreytingar

Þetta bendir Tryggvi Hjaltason, formaður hugverkaráðs á í samtali í Spursmálum en hann hefur fjallað ítarlega um veika stöðu drengja í skólakerfinu. Hann er gestur þáttarins ásamt Grími Atlasyni þar sem umræðan beinist meðal annars að aukinni tíðni ofbeldisbrota meðal barna, hnífaburði í skólum og miðbænum og þeim skelfilegu afleiðingum sem þær samfélagsbreytingar hafa leitt af sér.

Tryggvi telur að samfélagsmiðlar spili stóra rullu þegar kemur að veikari sjálfsmynd ungmenna og áhættuhegðun sem vart hefur orðið við. Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan en einnig eru þau rakin í textanum hér að neðan.

Er tölvuleikjum um að kenna?

Ofbeldishlutinn af þessu er kannski það sem hrindir þessari umræðu af stað núna. Þetta skelfilega mál á menningarnótt þar sem ung stúlka týnir lífinu vegna ofbeldi sem hún verður fyrir, hrottafengnu. Ég skoðaði tölfræði úr nýrri skýrslu frá stjórnarráðinu sem var gefin út núna fyrr í sumar um ofbeldi meðal barna. Árið 2018 eru tilkynningar um ofbeldisbrot sem börn fremja 542 en þau eru orðin 1072 árið 2023 og þetta er í línulegum vexti ár, eftir ár eftir ár. Hvernig mynduð þið skýra þetta? Hvar er ástæðna að leita? Er þetta í þessum tölvuleikjum, Fortnite og öllum þessum viðbjóði sem foreldrar leyfa börnum sínum að stunda? Eða eru þetta fjölbreyttari skýringar?

„Þetta hefur verið vel rannsakað, ég kem nú með bakgrunn úr tölvuleikjageiranum. Að svona ofbeldisfullir leikir, það er ekki mikil fylgni þar inn í ofbeldi hjá börnum almennt. Ég held að það séu tvær stórar breytur [...] það er annað þetta tilgangsleysi og sjálfsmyndavandi sem drengir eru að fara í og ég held að ein af rótunum þar sé eins og við fórum yfir áðan tungumálið og önnur rótin eru þessar hröðu samfélagsbreytingar og meira stress á heimilum og eins og Grímur er að fara inn á börn eru minna með foreldrum. Og það fylgir oft með þessum fréttum undanfarið að samfélagsmiðlar spila þarna hlutverk og BBC er nú bara nýbúið að taka úttekt á því hvað ungir karlmenn eru að sjá á TikTok, það eru hnífaárásir og ofbeldisárásir og jafnvel trend sem hvetja fólk í drive-by árásir og eitthvað svoleiðis, og þú póstar og færð læk þannig að það er bara komið mjög furðulegt hvatakerfi fyrir ungt fólk að fara í einhverja svona áhættuhegðun þar sem þessir algórithmar eru að ýta undir. Þetta er náttúrulega ótrúlega furðuleg staða að vera í,“ segir Tryggvi.

TikTok er stýrt af kínverskum stjórnvöldum, það er fullyrt að það efni sem börn á Vesturlöndum sjái og eru matreidd af sé allt annars konar efni en það efni sem börnin í Kína sjá. Er ástæða fyrir okkur út frá þjóðaröryggi, og þá er ég að tala um það í víðum skilningi orðsins, að stíga það skref sem BAndaríkjamenn hafa velt fyrir sér að banna þetta bara.

„Ég hef fylgst mikið með þeirri umræðu og ég hef mikinn áhuga á þessu því ég þekki einstaklinga í þessum geira í Bandaríkjunum sem hafa bara verið að smíða þessa algorithma og þeir hafa allir fullyrt, og sumir hafa bara gert það opinberlega, það er bara fræg heimildarmynd á Netflix um það, að þessir algórithmar eru ekki smíðaðir með það fyrir augum hvað sé best fyrir barnið og hvað lyfti því upp. Þeir eru smíðaðir með það fyrir augum hvað fær fólk til að vera sem lengst og horfa þá á sem flestar auglýsingar því þetta eru náttúrulega bara neysluvörur fyrirtækjanna og þessi samanburður við kínverska TikTokið er ótrúlegur. Það er bara til video af þessu þar sem er verið að para hlið við hlið, þar sem kínverskt barn sér bara ætlar þú ekki að verða geimfari og hérna meðan bandarísk börn sjá bara þú ert ljót nema þú fáir þér brjóstastækkanir eða ætlar þú ekki að fara út og sýna að þú sért karlmaður með því að fá þér Lamborghini. Þetta snýst allt um neyslu og samanburð,“ segir Tryggvi.

Viðtalið við þá Tryggva og Grím má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert