Líkur eru á slyddu eða snjókomu til fjalla fyrir norðan í kvöld en það er kólnandi veður í kortunum.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að í dag verði vaxandi norðanátt með kólnandi veðri, fyrst norðvestantil og síðar sunnan- og austanlands. Það verður úrkoma í flestum landshlutum í dag en þó verður bjart fyrir austan til að byrja með. Hitinn verður 5 til 13 stig, hlýjast suðaustantil.
Það léttir víða til sunnan heiða í kvöld en það kólnar og líkur eru á slyddu eða snjókomu til fjalla fyrir norðan.
Á morgun bætir í vind og úrkom og víða verður 10-18 m/s upp úr hádegi fyrir norðan. Það verður rigning á Norður- og Austurlandi og slydda eða snjókoma til fjalla. Það verður hins vegar bjart með köflum sunnan heiða. Hitinn verður 3-11 stig og verður hlýjast suðaustanlands.