Mjög krefjandi aðstæður í kortunum

Spáð er afar erfiðum veðurskilyrðum á stórum hluta landsins á …
Spáð er afar erfiðum veðurskilyrðum á stórum hluta landsins á mánudag og þriðjudag. Ljósmynd/Landsbjörg

Ferðamálastofa vekur athygli á mögulegri áhættu og nauðsyn varúðar vegna spár um afar erfið veðurskilyrði á stórum hluta landsins á mánudag og þriðjudag.

Allir sem eru í samskiptum við ferðafólk eru hvattir til að tryggja öryggi og vellíðan viðskiptavina sinna og upplýsa og undirbúa þá fyrir þau erfiðu veðurskilyrði sem spáð er.

Líkt og fram hefur komið í fréttum er afar erfiðum veðurskilyrðum spáð á stórum hluta landsins á mánudag og þriðjudag. Spáð er miklum vindi og snjókomu á fjallvegum á Norðvesturlandi, Norðurlandi, Norðausturlandi og hálendinu sem mun skapa mjög krefjandi aðstæður, sérstaklega fyrir fólk sem ekki er vant íslenskum aðstæðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu þar sem hvatt er til að upplýsa viðskiptavini um spá um mikinn vind og snjókomu þar sem áhersla verði lögð á mögulega áhættu og nauðsyn varúðar.

Upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð

Ráðleggja eigi viðskiptavinum að forðast að ferðast á fjallvegum á þessu tímabili þar sem skilyrðin verði sérstaklega hættuleg fyrir ökutæki, ekki síst þau sem taka á sig mikinn vind.

Biðja eigi viðskiptavini að fylgjast reglulega með vef Vegagerðarinnar og fréttum innlendra miðla fyrir nýjustu veðurspár og aðstæður á vegum.

Ganga eigi úr skugga um að viðskiptavinir hafi meðferðis mat, vatn og hlý föt, og að þeir viti hvernig á að hafa samband við neyðaraðila ef nauðsyn krefur.

Bjóða eigi upp á aðstoð við að skipuleggja öruggari ferðaleiðir og bóka viðeigandi farartæki.

Samvinna og fyrirbyggjandi samskipti

Í tilkynningunni er einnig bent á upplýsingasíður Vegagerðarinnar, Veðurstofunnar og Safe Travel.

„Með því að grípa til þessara aðgerða getið þið hjálpað til við að tryggja viðskiptavinum ykkar öruggari og ánægjulegri upplifun á Íslandi þrátt fyrir erfið veðurskilyrði.

Samvinna ykkar og fyrirbyggjandi samskipti eru lykilatriði til að draga úr áhættunni sem fylgir þessum slæmu skilyrðum sem nú er spáð,“ sem segir í tilkynningunni.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert