Þúsundir skemmtu sér fallega á Ljósanótt

Bogomil Font tróð upp á stórtónleikum á Ljósanótt í gærkvöld.
Bogomil Font tróð upp á stórtónleikum á Ljósanótt í gærkvöld. Ljósmynd/Reykjanesbær

Skipuleggjendur Ljósanætur í Reykjanesbæ telja að hún hafi verið með þeim fjölmennari og að tugþúsundir gesta hafi tekið þátt í dagskrá laugardagsins enda margt til skemmtunar.

„Sólin gerir auðvitað gott betra,“ er haft eftir Guðlaugu Maríu Lewis, verkefnastjóra Ljósanætur,  í tilkynningu frá Reykjanesbæ eftir vel heppnaðan og sólríkan laugardag á Ljósanótt.

„Við fögnuðum sérstaklega 30 ára afmæli Reykjanesbæjar með hreint út sagt frábærri tónlistarveislu og flugeldasýningu sem landsmenn fengu að njóta með okkur í beinni útsendingu,“ segir Guðlaug María.

Margt um manninn í skrúðgöngunni á Ljósanótt.
Margt um manninn í skrúðgöngunni á Ljósanótt. Ljósmynd/Reykjanesbær

Að sögn Guðlaugar var virkilega góð og jákvæð stemning á svæðinu og langsamlega flestir staðráðnir í að vera með ljós í hjarta á Ljósanótt eins og lagt var upp með.

Gekk allt stórslysalaust

„Við höfum auðvitað áhyggjur eins og aðrir af hópamyndun og ölvun unglinga sem virðist orðið samfélagslegt vandamál sem þjóðin þarf að taka höndum saman um að stemma stigu við. Eftir því sem við best vitum á þessari stundu gekk þetta stórslysalaust hjá okkur og fyrir það erum við þakklát,“ segir hún.

Síðasti dagur Ljósanætur er í dag en hátíðinni lýkur í kvöld með tónleikum Herberts Guðmundssonar og kórs Keflavíkurkirkju í Keflavíkurkirkju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert