Vara við þjófagengjum sem herja á eldri borgara

Lögreglan hefur ítrekað varar við gengjunum.
Lögreglan hefur ítrekað varar við gengjunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurlandi varar enn og aftur við þjófagengjum sem herja á eldri borgara.

„Það er að gerast víða hérlendis að þjófagengi séu að einbeita sér að eldri borgurum þar sem þeir eru að versla í verslunum. Þjófarnir ná pin-upplýsingum þegar fólk er að versla, ræna síðan kortunum af fólki og fara í næsta hraðbanka og taka út af greiðslukortunum eins mikið og þeir geta.

Því miður hafa þjófarnir haft töluverðar upphæðir upp úr svikunum,“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Hvatt til að hafa samband við lögreglu

Fólk sem telur sig hafa orðið fyrir barðinu á þjófum er hvatt til að setja sig tafarlaust í samband við þjónustubanka sinn og láta loka greiðslukortum.

Þá er það jafnframt hvatt til að setja sig í samband við lögreglu og tilkynna málið í síma 112.

Hleypur á hundruðum þúsunda

Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að upphæðirnar sem þjófagengin hefðu svikið af fólki eftir að hafa komist yfir greiðslukort fólks skiptu hundruðum þúsunda króna.

„Þessir menn koma auga á eitthvað fólk og fylgjast með því stimpla inn auðkennisnúmer í hraðbanka, ná síðan greiðslukortunum af því og taka út peninga,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert