1.000 ferðir á fjallið

Útsýnið sem blasir við Guðmundi Eiríkssyni, Umma, sem hefur endurhlaðið …
Útsýnið sem blasir við Guðmundi Eiríkssyni, Umma, sem hefur endurhlaðið Hoffmannsvörðuna. Ljósmynd/Ummi

„Sjálfsagt þykir einhverjum þetta bölvuð vitleysa en ég er alveg friðlaus ef ég fer ekki af stað,“ segir hinn 78 ára gamli fyrrverandi sjómaður á Húsavík, Guðmundur Hersteinn Eiríksson, sem undanfarin níu ár hefur gengið 100-150 sinnum á ári upp Húsavíkurfjallið, sem er 417 metra hátt. Alls eru þetta orðnar um 1.000 ferðir.

Guðmundur, eða Ummi eins og hann er gjarnan kallaður, er einnig duglegur að hjóla og fer í sjóböðin á Húsavík að lokinni hverri fjallgöngu. Hann hefur jafnframt verið duglegur að ganga á önnur fjöll, m.a. á Herðubreið á síðasta ári.

Guðmundur skálaði fyrir Pétri Hoffmann við vörðuna.
Guðmundur skálaði fyrir Pétri Hoffmann við vörðuna. Ljósmynd/Ummi

Aldrei verið sporlatur

Ummi starfaði lengstum sem sjómaður og síðustu starfsárin við þrif í frystihúsinu á Húsavík. Þegar hann varð 70 ára, og hættur að vinna, setti hann sér markmið á nýársdegi 2016 að fara 70 ferðir upp á bæjarfjallið. Hann segist fram að því ekki hafa stundað hreyfingu með markvissum hætti. „Hef þó aldrei verið sporlatur,“ segir Ummi og hlær smitandi hlátri.

Nýtt markmið um fjallgöngur kom reyndar ekki til af góðu. Árið 2015 fékk hann blóðtappa í lungun og eftir það ákvað hann að koma sér í gang aftur. Horfði til fjalls og hugsaði með sér að það væri áskorun við hæfi.

Ferðirnar fyrsta árið urðu reyndar ekki 70 heldur 100 og flestar urðu þær um 150 árið 2022. Þá ákvað Ummi að ganga sem næmi því að þramma hringveginn, um 1.320 km.

„Mottóið hjá mér er að fara að heiman og heim, aldrei að svindla. Þótt ég fari á hjóli af stað, þá geng ég alltaf upp fjallið. Margir hafa boðið mér far en ég neita alltaf,“ segir Ummi en hægt er aka alla leið upp á Húsavíkurfjall.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær.

Ummi við vörðuna góðu sem hann endurhlóð og merkti Hoffmann …
Ummi við vörðuna góðu sem hann endurhlóð og merkti Hoffmann á einn steininn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert