Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna fjölbreyttra stuðningsaðgerða við Grindavík árin 2023–2024 nemi um 80 milljörðum kr.
Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Þar segir, að enn sjái ekki fyrir endann á jarðhræringum og eldgosum í og við Grindavík. Stjórnvöld leggi þunga áherslu á að skapa forsendur fyrir öruggari framtíð Grindvíkinga og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að Grindavík verði aftur það öfluga bæjarfélag sem það hafi verið fyrir eldsumbrotin.
„Áætlað er að kostnaður ríkissjóðs vegna fjölbreyttra stuðningsaðgerða við Grindavík árin 2023–2024 nemi um 80 ma.kr. Aðgerðirnar felast einkum í stuðningi til launagreiðslna, rekstrarstuðningi til fyrirtækja, sértækum húsnæðisstuðningi, byggingu varnargarða og kaupum Fasteignafélagsins Þórkötlu á íbúðarhúsnæði í Grindavík.“