„Ánægður með að mér skuli vera sýnt þetta traust“

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra.
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mín fyrstu verk verða að kynnast þessu ágæta fólki sem með mér starfar og að kynna mér starfsemina,“ segir Birgir Jónas­son, lög­reglu­stjóri á Norður­landi vestra, sem mun taka við sem forstöðumaður Fangelsismálastofnunar í byrjun næsta mánaðar.

Birgir segir starfið leggjast vel í sig en um er að ræða tímabundna ráðstöfun á meðan núverandi fangelsismálastjóri, Páll E. Winkel, fer í ársleyfi.

Hefur hann tekið að sér störf á veg­um há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins til ára­móta og mun svo gegna embætti fram­kvæmda­stjóra Mennta­sjóðs náms­manna frá ára­mót­um til 30. júní á næsta ári.

Segist Birgir hafa átt í ágætum samskiptum við Pál um nýja starfið en að hann sé þó ekki enn búinn að hitta starfsfólkið sem hann muni vinna með.

Um töluverða breytingu að ræða

Hefurðu mótað þér einhverjar hugmyndir um hver þín fyrstu verk gætu verið?

„Ég held að maður þurfi fyrst að kynna sér starfsemina fyrst áður en maður mótar sér skoðanir á því. Ég held að þetta sé nú í svona nokkuð föstum skorðum og vel rekin stofnun þannig það er ekki tímabært að tala um breytingar,“ segir Birgir.

Þurftirðu að hugsa þig lengi um áður en þú þáðir starfið?

„Nei, ekkert sérstaklega. Þetta er töluverð breyting að stjórna stofnun þar sem vinna 25 manns yfir í þar sem vinna á annað hundrað manns. Þetta er mikill stærðarmunur á þessum stofnunum og þetta er ákveðið tækifæri fyrir mig og ég er ánægður með að mér skuli vera sýnt þetta traust,“ segir Birgir.

„Þetta bar nokkuð brátt að og mín tilfinning er bara góð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert