Árangur af jarðhitaleit kominn fram úr vonum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fór yfir stöðuna …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fór yfir stöðuna á fundi í gær. mbl.is/Eyþór

Árangur af jarðhitaleit á Miðnesheiði er þegar kominn fram úr björtustu vonum, en þegar hafa verið boraðar tvær rannsóknarholur til leitar að lághitavatni sem vísbendingar eru um að geti skilað heitu vatni í þeim mæli að unnt verði að halda öllum innviðum á Suðurnesjum frostfríum, komi til þess að hitaveita á svæðinu verði óvirk vegna eldsumbrota.

Þetta kom m.a. fram á blaðamannafundi í gær þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði grein fyrir stöðu jarðhitaleitar í landinu, en hann hratt af stað átaki í þeim efnum á sl. ári.

Fundist hefur jarðhiti á nýjum svæðum, m.a. á Miðnesheiði, á Selfossi og í Tungudal við Ísafjarðarbæ.

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, kynnti á fundinum árangur af sérstakri …
Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, kynnti á fundinum árangur af sérstakri jarðhitaleit á Reykjanesi, sem fram hefur farið á síðustu mánuðum. Eyþór Árnason

Lofa góðu

Holurnar tvær sem boraðar hafa verið á Miðnesheiði lofa góðu og vísbendingar sagðar um að úr annarri holunni megi vinna 40 lítra á sekúndu af 70 gráðu heitu vatni. Sú hola er talin geta haldið Suðurnesjum frostfríum verði hitaveitan sem fyrir er óvirk, en til lengri tíma gæti holan skilað fjórðungi þess vatns sem til þarf á Suðurnesjum. Hin borholan er talin geta skilað 35 – 40 lítrum á sekúndu af 40 gráðu heitu vatni sem nýta mætti til hitaveitu með varmadælum.

Ekki hefur áður fundist nýtanlegur jarðhiti í Tungudal, en ætlað er að sú vinnsluhola sem boruð hefur verið geti skilað vatni sem dugar öllum Ísafjarðarbæ til húshitunar. Þegar þar að kemur mun kyndingu með rafmagni verða hætt og þar með sparast niðurgreiðslur sem því nemur.

Í fjárlögum þessa árs er veitt ríflega 5 milljörðum króna til niðurgreiðslna, þar af tæpum 2,4 milljörðum vegna hitunar íbúðarhúsnæðis og tæplega 2,6 milljörðum til jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku.

Það átak sem ráðist var í til jarðhitaleitar var drifið af framlagi úr Orkusjóði sem veitir 450 milljónum til þessa á þriggja ára tímabili. Því til viðbótar var veitt milljarði til jarðhitaleitar á Reykjanesi sem var neyðarviðbragð stjórnvalda vegna þeirrar ógnar sem stafar að orkuinnviðum í Svartsengi vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert