Greiða þarf gjald af 233.000 ökutækjum til viðbótar

Umferð á höfuðborgarsvæðinu.
Umferð á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með innleiðingu kílómetragjalds fyrir bensín- og dísilbíla á næsta ári munu bætast við samtals 233.000 ökutæki sem greiða þarf gjaldið af.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Þar segir að þetta sé síðara skref við innleiðingu nýs, einfaldara og sanngjarnara gjaldtökukerfis af ökutækjum og eldsneyti.

Markmið að tryggja fjármögnun vegasamgangna um allt land

„Gjaldið kemur í stað sértækra vörugjalda á bensín og olíu. Markmið þess er að tryggja sjálfbæra fjármögnun öruggra og greiðra vegasamgangna um allt land samhliða orkuskiptum til framtíðar. Fyrsta skrefið við innleiðingu kerfisins var stigið um síðustu áramót þegar kílómetragjald var lagt á notkun rafmagns- og vetnisbifreiða annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar á vegakerfinu,“ segir í frumvarpinu. 

Tekið er fram, að innleiðing þess hafi gengið vel og fyrir lok janúar á þessu ári hafi 97% eigenda þessara bifreiða skráð kílómetrastöðu á Ísland.is.

Greiði fyrir afnot í samræmi við notkun og þyngd ökutækja

„Sú reynsla sem þar hefur fengist, sá lærdómur sem af því hefur verið dreginn, auk mikilvægra ábendinga sem hafa komið fram, verður nýtt við áframhaldandi innleiðingu kerfisins árið 2025. Þá bætast við 233.000 ökutæki. Með innleiðingu kílómetragjalds munu þeir sem aka um vegakerfið greiða fyrir afnot þess í samræmi við notkun og þyngd ökutækja. Gjaldtakan mun þannig með gagnsæjum hætti endurspegla betur raunverulegan kostnað við notkun vegakerfisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert