„Hljómaði eins og hann væri á leið á elliheimili“

Stefán Snær Ágústs­son, fyrr­ver­andi starfsnemi á Banda­ríkjaþingi fyr­ir Demókrataflokkinn, gerir ráð fyrir því að í kappræðurnar vestanhafs í nótt verði þær einu fram að kosningum.

Segir hann að kosningateymi Donalds Trumps sé væntanlega búið að undirbúa Trump þannig að hann verði ekki með persónulegar móðganir eins og að vega að kynþætti Kamölu Harris.

Þetta kemur fram í Dagmálum sem birtist í gær.

Undirbúa hann vel svo hann tali ekki um kynþátt hennar

Stefán minnist á það þegar Trump sagði um Kamölu Harris: „Allt í einu breyt­ir hún um gír og verður svört mann­eskja.“ Sagði hann þetta á ráðstefnu Lands­sam­bands svartra blaðamanna.

„Það er eitthvað í kappræðunum núna á þriðjudaginn sem hann mun hundrað prósent ekki tala um og þau [kosningateymið] munu undirbúa hann að ekki tala um kynþáttinn hennar, kynið hennar eða neitt þannig,” segir Stefán og útskýrir að það komi illa út fyrir Trump og að í raun vilji demókratar að Trump fari þangað.

Aðspurður segir hann að staðan í baráttunni miðað við mælingar undirstriki mikilvægi kappræðnanna.

„Þetta er fyrsta sinn sem þau hittast og tækifæri fyrir kjósendur að sjá þau á sama sviði,“ segir hann.

Slökkt á hljóðnemum

Það verður slökkt á hljóðnem­um þegar hinn fram­bjóðand­inn er með orðið alveg eins og kappræðum Trumps og Joe Bidens Bandaríkjaforseta í júní. Stefán minnist á það að það var Biden sem bað um þessa reglu upphaflega.

„Biden-teymið sá strax eftir því vegna þess að þá stöð Trump bara þögull og forsetalegur á meðan Biden blaðraði og hljómaði eins og hann væri á leið á elliheimili,“ segir hann.

Aftur á móti var það kosningateymi Trumps sem vildi að slökkt yrði á hljóðnemanum núna, ekki Kamala Harris.

Gerir ekki ráð fyrir fleiri kappræðum

Stefán heldur að það verði ekki fleiri kappræður og bendir á að hvatinn fyrir því að halda aðrar kappræður, hjá þeim sem verður talinn hafa sigrað kappræðurnar í nótt, er ekki sérlega mikill.

Ef staðan verði þó áfram hnífjöfn og enginn augljós sigurvegari þá gæti þó annað verið upp á teningnum.

„Mér finnst mjög ólíklegt að við komum út úr þessari viku og staðan verður enn þá svona jöfn – að þau vilji hafa aðrar kappræður,“ segir hann.

Áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins geta nálg­ast viðtalið í heild sinni með því að smella hér.

Stefán segir að kosningateymi Bidens hafi strax séð eftir því …
Stefán segir að kosningateymi Bidens hafi strax séð eftir því að hafa beðið um að slökkt yrði á hljóðnemum í kappræðum Bidens og Trumps. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert