Kostnaður vegna fangelsis tvöfaldast

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi

Gert er ráð fyrir því að heildarbyggingarkostnaður vegna nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns nemi 14,4 milljörðum króna miðað við verðlag þessa árs.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2025. Þar er gert ráð fyrir að fangelsið verði tekið í notkun árið 2028 og að byggingin verði um 12 þúsund fermetrar að stærð.

Upphæðin er tvöfalt hærri en dómsmálaráðherra greindi frá á blaðamannafundi fyrir um ári síðan þegar áform um nýja fangelsið voru kynnt. Þá var áætlaður kostnaður sagður sjö milljarðar króna.

Þegar fjármálaáætlun var kynnt í apríl síðastliðnum hafði upphæðin hækkað mikið. Þar kom fram að verja ætti 12,6 milljörðum króna til byggingar fangelsisins á tímabili áætlunarinnar, eða á árunum 2025 til 2029.  

Fjárheimild hækkar um 1,4 milljarða

Í fjárlagafrumvarpinu sem var kynnt í morgun kemur fram að fjárheimild hækki um 1,4 milljarða króna vegna byggingar fangelsisins.

„Til verkefnisins er áætlað að verja 12.600 m.kr. á tímabili fjármálaáætlunar 2025–2029 en þegar hefur verið varið 1.800 m.kr. til verkefnisins,“ segir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2025.

„Bygging nýs fangelsis er líkleg til að stuðla að jafnrétti til lengri tíma með bættum aðbúnaði fyrir fanga sem eru fyrst og fremst karlar en nýtt fangelsi mun jafnframt hafa jákvæð áhrif á starfsfólk og aðstandendur fanga. Forsendur til að sinna geðheilbrigðisþjónustu verða allt aðrar og betri og sama má segja um aðstöðu til heimsókna,“ segir í frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert