„Mikilvægt fyrir alla að breyta til“

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Hari

Páll E. Winkel fangelsismálastjóri segist spenntur fyrir nýju starfi innan há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins. Segir hann mikilvægt fyrir alla að breyta til og kynnast öðrum vettvangi. Hann segist frekar gera ráð fyrir því en ekki að snúa aftur til Fangelsismálastofnunar þegar ársleyfinu er lokið.

Nefnir hann að það hafi ekki haft áhrif á ákvörðun hans að sjá annan háttsettan mann innan réttarvörslukerfisins, Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara, verða fyrir hótunum í starfi sínu. Slíkt sé hins vegar hluti af starfsumhverfi í þessum geira.

Páll mun taka árs­leyfi frá embætti for­stjóra Fang­els­is­mála­stofn­un­ar frá 1. októ­ber og taka að sér störf á veg­um há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins til ára­móta.

Mun hann svo gegna embætti fram­kvæmda­stjóra Mennta­sjóðs náms­manna frá ára­mót­um til 30. júní á næsta ári, meðan á náms­leyfi Hrafn­hild­ar Ástu Þor­valds­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra stofn­un­ar­inn­ar, stend­ur.

Hlakka til þess að takast á við ný verkefni“

„Ég er búinn að vera í þessu embætti í 17 ár og kunnað mjög vel við mig og mér bauðst núna tækifæri til þess að taka þátt í tímabundnu verkefni undir ráðuneyti Áslaugar Örnu og hennar fólks. Ég hef unnið áður undir hennar stjórn og það er ekki leiðinlegt,“ segir fangelsismálastjórinn og bætir við.

„Þetta er málaflokkur sem að er nýr fyrir mér og ég held að það sé mikilvægt fyrir alla að breyta til og kynnast öðrum vettvangi. Þegar að svona spennandi tækifæri gefst þá væri í mínum huga ekki klókt að taka því ekki. Þetta er til eins árs og ég kem þarna inn að hluta til í stað mjög reynslumikils forstöðumanns og ég geri mér grein fyrir að það verði snúið en ég hlakka til þess að takast á við ný verkefni.“

Gildi sömu lögmál

Páll hefur að eigin sögn starfað í réttarvörslukerfinu með einum eða öðrum hætti í þrjátíu ár. Vann hann sem lögreglumaður samhliða laganámi áður en að hann starfaði svo sem lögfræðingur hjá Fangelsismálastofnun frá 2001-2005, fram­kvæmda­stjóri Lands­sam­bands lög­reglu­manna 2005-2007 og aðstoðarrík­is­lög­reglu­stjóri 2007.

„Ég er búinn að vera í þessu í mjög langan tíma en ég held að það gildi alveg sömu eðlislögmál í þessu eins og í öðrum opinberum rekstri. Það þarf að fara vel með opinbert fé og hámarka allt það sem hægt er að fá út úr ríkisrekstri,“ segir Páll.

Sérðu fyrir þér að snúa aftur að ári liðnu?

„Ég hef bara ekki velt því neitt fyrir mér. Ég ætla að einbeita mér að þessu. Þetta embætti sem ég gegni, ég get komið hingað aftur eftir ár og ég met stöðuna þegar nær dregur en ég geri frekar ráð fyrir því.“

Hótanir hluti af vinnuumhverfinu

Eins og greint hefur verið frá sat vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson, undir hótunum manns sem átti sér langa afbrotasögu árum saman. Aðspurður segir Páll að það hafi ekki haft áhrif á ákvörðun hans að sjá annan háttsettan mann innan réttarvörslukerfisins verða fyrir hótunum.

„Ég kannast við það sem Helgi Magnús lýsir án þess að ég vilji kannski fara efnislega yfir það að öðru leyti en að þetta er hluti af því vinnuumhverfi sem fólk í þessum geira, hvort sem það eru yfirmenn eða almennir starfsmenn, þurfa að lifa við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert