Mjúk lending eða verður þróunin á annan veg?

Óvissa ríkir hverju sinni um efnahagsþróun.
Óvissa ríkir hverju sinni um efnahagsþróun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óvissa ríkir hverju sinni um efnahagsþróun. Þótt góðar líkur standi til þess að hagkerfið lendi mjúklega eftir öran vöxt síðastliðin þrjú ár getur þróunin orðið á annan veg, að því er segir í fjárlagafrumvarpi næsta árs. 

„Enginn vafi er á því að hækkun stýrivaxta hefur dregið úr verðhækkunum, jafnt hér á landi sem í öllum okkar nágrannaríkjum. Þó er illmögulegt að meta með nákvæmni hversu mikil áhrif aðhaldið hefur á verðbólgu og efnahagsumsvif og með hversu mikilli töf,“ segir í frumvarpinu.

Samspil hagstærða tekur sífelldum breytingum

Þá segir, að ákvarðanir hagstjórnaraðila byggist m.a. á þjóðhagslíkönum sem gefi vísbendingu um þetta en samspil hagstærða taki sífelldum breytingum sem jafnvel þróuðustu haglíkön nái ekki að fanga. Í þessu samhengi megi nefna breytingar á vinnumarkaði, á fjármálamarkaði og í samsetningu hagkerfisins eftir heimsfaraldurinn.

Tekið er fram að þetta sé raunin jafnt hér á landi sem erlendis. Hér á landi bætist við óvissa um það hvort og hversu mikið kjölfesta verðbólguvæntinga hafi losnað og hvaða áhrif það hefur á virkni peningastefnunnar.

Getur þurft að herða aðhald hagstjórnarinnar

„Ef verðbólga reynist enn þrálátari en spár gera ráð fyrir, og hækkar jafnvel aftur, getur enn þurft að herða aðhald hagstjórnar með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagsumsvif. Það gæti t.d. gerst ef kjölfesta verðbólguvæntinga reynist veikari en tiltæk gögn benda nú til,“ segir í frumvarpinu. 

Bent er á að nýlegar hagspár gætu einnig reynst of svartsýnar og verðbólga lækkað hraðar en þar sé gert ráð fyrir. Þá myndi meira svigrúm skapast til lækkunar stýrivaxta.

„Óvissa um samspil hagstjórnar og efnahagsumsvifa er aðeins einn af mörgum efnahagslegum óvissuþáttum en e.t.v. sá sem blasir einna mest við nú um mundir,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert