Mun ekki grípa fram fyrir hendur Seðlabankans

Sigurður Ingi hyggst ekki grípa fram fyrir hendur Seðlabanakans.
Sigurður Ingi hyggst ekki grípa fram fyrir hendur Seðlabanakans. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn/Eggert

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, segir ekki koma til greina að grípa fram fyrir hendur Seðlabankans við ákvörðun peningastefnu.

Þetta segir hann í samtali við mbl.is í kjölfar kynningar á fjárlögum fyrir árið 2025.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, sagði í samtali við Vísi í gær að stjórnvöld þyrftu að grípa inn í ef Seðlabankinn hefði ekki hug á því að lækka stýrivexti í bráð.

Háir vextir hafi viðtæk áhrif

Kemur þetta til greina?

„Nei. Eins og uppleggið á þessari kynningu segir okkur þá er þetta allt að koma. Við erum að sjá til lands í gegnum þennan verðbólgukúrf. Það er alveg rétt að háir stýrivextir og háir raunvextir í svona langan tíma hafa auðvitað miklu víðtækari áhrif heldur en nákvæmlega á þá þætti sem þarf til að hemja þensluna,“ segir hann.

Sigurður nefnir að hvað varði verðbólguna þá sé áskorunin fyrst og fremst á húsnæðismarkaði. Hann segir að auka þurfi framboð og byggja meira á sama tíma og Seðlabankinn er að reyna hemja vöxtinn í öllum atvinnugreinum.

„Það er að takast í öllum öðrum geirum nema byggingargeiranum,“ segir Sigurður.

Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill skoða óhefðbundnar leiðir

Er eitthvað sem stjórnvöld geta gert til að knýja á um það að sveitarfélögin auki lóðaframboð?

„Ég held að við þurfum að leggjast betur yfir óhefðbundnari leiðir og allar mögulegar lausnir á húsnæðismarkaði. Vegna þess að það er – ef við horfum annars vegar í baksýnisspegilinn en líka til framtíðar – okkar stærsta áskorun,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert