Sökum þess að plast sem alla jafna er notað til útgáfu ökuskírteina er ekki tiltækt verður ekki hægt að fá ökuskírteini nema í undantekningartilfellum fram í janúar á næsta ári.
Helgast það af því að til stendur að flytja framleiðslu ökuskírteinanna til Íslands og er samningur við ungverska verktaka, sem framleitt hafa ökuskírteinin, nú útrunninn.
Gert er ráð fyrir því að afgreiðsla skírteinanna verði hjá Þjóðskrá, en embætti ríkislögreglustjóra sér um útgáfu þeirra. Að sögn Sigríðar Kristinsdóttur, sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu, er útboðsferli í gangi á EES-svæðinu varðandi kaup á plasti.
„Framleiðandinn okkar er að hætta og er því ekki með mikið af plasti. Þá þurfum við að kaupa plast sem er eins og blöð í prentara til að framleiða ökuskírteinin,“ segir Sigríður.
Hún áréttar að í undantekningartilfellum, t.a.m. þegar fólk þarf að fara erlendis og leigja bíl, þá sé hægt að útvega plastskírteini.
„Þú þarft ekki plastskírteini til að keyra á Íslandi. Þér nægir stafræna ökuskírteinið hér,“ segir Sigríður.
„Við erum að færa framleiðslu á ökuskírteinum til Íslands. Hún hefur verið í Ungverjalandi í meira en áratug og þetta mun hafa þær jákvæðu afleiðingar að afgreiðslutími ökuskírteina mun styttast. Nú er afgreiðslutíminn þrjár vikur en gæti orðið um vika hér eftir,“ segir Sigríður.