Ríkisstjórnin getur ekki talað sig í meistaratitla

Þorgerður segir lítið hafa breyst þótt nýtt nafn ráðherra sé …
Þorgerður segir lítið hafa breyst þótt nýtt nafn ráðherra sé komið í fjármála- og efnahagsráðuneytið. mbl.is/Árni Sæberg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist vera döpur og undrandi eftir að nýtt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 var kynnt í dag.

„Við erum að upplifa enn ein fjárlögin sem rekin eru með halla og það blasir við að þessi ríkisstjórn mun skila ríkissjóði halla í að minnsta kosti tíu ár,“ segir Þorgerður Katrín. 

„Það er löngu búið að vara við þessu og það er ekki lengur hægt að skýla sér á bakvið Covid-aðgerðir. Við byrjuðum að vara við þessu árið 2018.“

Ósammála ráðherranum

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að á árinu 2025 verði 41 milljarðs króna halli á heildarafkomu ríkissjóðs. Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra sagði við kynningu frumvarpsins í dag að þar væri að finna skilyrði fyrir lægri vexti og verðbólgu. 

Þorgerður er ekki á sama máli og ráðherrann og segist ekki sjá neitt í fjárlögunum sem bendi til lægri verðbólgu og vaxta. 

Sérð þú að þetta fjárlagafrumvarp muni skila sér í lægri verðbólgu og vöxtum?

„Nei, við vitum það sem fylgjumst með íþróttum að það er hægt að tala sig upp í alls konar meistaratitla en það er ekki að gerast hjá þessari ríkisstjórn.“

Vantar aðhald og metnað

Þá segir hún ríkisstjórnina vanta aðhald í ríkisfjármálum og metnaðarfyllri áform um að einfalda kerfið.

Hún segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða eins og að selja ríkiseignir og nefnir þá til dæmis Íslandsbanka. 

„Þó það sé skipt um nafn í fjármálaráðuneytinu hefur lítið breyst og þetta er bara sinnuleysi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert