Ríkisstjórnin missti af síðasta tækifærinu

Kristrún segir að ríkisstjórnin bendi á aðra í stað þess …
Kristrún segir að ríkisstjórnin bendi á aðra í stað þess að taka ábyrgð í efnahagsmálum. mbl.is/Arnþór

„Þetta var síðasta tækifæri ríkisstjórnarinnar til að takast á við verðbólguna. Þetta eru síðustu fjárlögin sem þau leggja fram og þau virðast ekki ætla að nýta þetta tækifæri.“

Þetta segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, um nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag. 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að á árinu 2025 verði halli ríkissjóðs 41 milljarður króna samanborið við 57 milljarða króna halla á yfirstandandi ári.  

Bendi á alla aðra

Kristrún segir ríkisstjórnina hafa brugðist í efnahagsmálum. Ráðherrar neiti að taka ábyrgð og bendi frekar á alla aðra í kringum sig. 

„Yfirskrift kynningarinnar hjá fjármálaráðherra var að „þetta sé allt að koma“ og þá vakna auðvitað spurningar um hvað þau eru búin að vera að gera. Það er verri afkoma og meiri halli en gert er ráð fyrir bæði á þessu ári og á því næsta,“ segir Kristrún og heldur áfram: 

„Svar ríkisstjórnarinnar við verðbólgunni og vaxtaástandinu er að reka ríkissjóð með ennþá meiri halla og þau virðast ekki treysta sér að taka ábyrgð á ástandinu og benda á alla aðra í stað þess að grípa til aðgerða.“

Ekkert bendi til lækkun verðbólgu

Sigurður Ingi Jóhannesson sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að fjárlögin myndu stuðla að lækkun verðbólgu með aðhaldi upp á 29 milljarða.

Kristrún segir að ekkert í frumvarpinu bendi til þess að verðbólgunni verði náð niður með þessum hætti. Málflutningur Sigurðar beri það með sér. 

„Það er bara talað um að þetta sé allt að koma hægt og rólega og þetta er bara að malla á sjálfstýringu eins og síðustu ár. Það hefur skilað litlum árangri og ég vænti þess að þetta ekki nægilegum árangri fyrir fólkið í landinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert