Ríkisstjórnin treystir á „guð og lukkuna“

Inga Sæland segir ríkisstjórnina auka þenslu í efnahagskerfinu.
Inga Sæland segir ríkisstjórnina auka þenslu í efnahagskerfinu. mbl.is/Arnþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir nýtt fjárlagafrumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sem kynnt var í dag litað af kosningaloforðum.

Hún segir ríkisstjórnina ekki taka ábyrgð á efnahagsástandinu og treysti frekar á „guð og lukkuna til að koma á jafnvægi í efnahagsmálum“.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í dag nýtt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 þar sem gert er ráð fyrir að halli ríkissjóðs verði 41 milljarður króna af heildarafkomu ríkissjóðs. 

Koma með blússandi þenslu

Ráðherrann segir að í fjárlögunum séu sköpuð skilyrði fyrir lægri vexti og verðbólgu þar sem fjármunum verði forgangsraðað og lögð áhersla á aðhald í útgjöldum. 

Aðspurð segir Inga að ekkert bendi til þess að vextir og verðbólga fari lækkandi með þessum aðgerðum. 

„Þeir eru að koma með blússandi þenslu inn í verðbólguna. Þeir ætla að reisa hérna þjóðarhöll og nýtt fangelsi og ef það er skilningur fjármálaráðherra að það komi vel út í baráttunni við verðbólgu og stýrivexti Seðlabankans, þá ætti þessi fjármálaráðherra að finna sér eitthvað annað að gera.“

Gagnrýnir nýja þjóðarhöll

Spurð hvað hún hefði viljað sjá í frumvarpinu til að draga úr verðbólgu og vöxtum segir Inga:

„Ég myndi aldrei nokkurn tímann boða til krónutöluhækkana og hallabygginga að ýmsum toga og halda þar með áfram að koma með þenslu inn í þetta viðkvæma ástand,“ segir Inga en í téðu fjárlagafrumvarpi munu krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi og tóbak hækka um 2,5%.

Þá er gert ráð fyrir að bygging nýs fangelsis í stað Litla-Hrauns og fyrstu skref í átt að byggingu Þjóðarhallar hefjist á næsta ári en áætlaður kostnaður fyrir nýtt fangelsi er 14,4 milljarðar og 15 milljarðar fyrir nýja Þjóðarhöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert