Sagði sorg grúfa yfir landinu

Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, í Dómkirkjunni í dag við …
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, í Dómkirkjunni í dag við þingsetningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í guðsþjónustu í Dómkirkjunni sagði biskup Íslands, sr. Guðrún Karls Helgudóttir, sorg grúfa yfir landinu við setningu Alþingis vegna erfiðra atburða á undanförnum vikum og að fjöldi fólks hefði leitað til kirkjunnar vegna þeirra.

Hún sagði verkefni okkar allra vera að vinna að velferð fólksins í landinu, ekki síst barna og ungs fólks. Skapa þyrfti börnum innihaldsríkt líf sem færi ekki eingöngu fram fyrir framan skjái og á samfélagsmiðlum. Samfélag þar sem hver einasta manneskja væri metin að verðleikum.

„Getum gengið í takt“

Hún kvaðst áður hafa tjáð sig um að hún væri sátt við að aðskilnaður ríkti milli ríkis og kirkju.

„Kirkjan verður að vera sjálfstæð í sinni boðun en það þýðir ekki að ríki og kirkja eigi að vera ótengd að öllu leyti,“ sagði biskup og bætti við að ríkið setti lögin en að kirkjan boðaði kærleikann og gætti að sálgæslu.

„Við getum gengið í takt þrátt fyrir ólíkar skoðanir því hjarta okkar allra slær fyrir velferð fólksins í landinu.“

Ekki gott að lenda í bergmálshelli

Guðrún Karls talaði um að það væri ekki fyrir meðvirka að sitja á Alþingi. Ákveðins þroska krefðist að geta umgengist og jafnvel þótt vænt um fólk þótt það væri ósammála okkur í mörgum málum.

Hún sagði manneskjuna vera svo miklu meira en skoðanir hennar, hvað þá það sem birtist á samfélagsmiðlum og nefndi að ekki væri gott að raða í kringum sig fólki sem væri sama sinnis og maður sjálfur í öllum tilfellum. Þá lenti fólk í bergmálshelli.

Peningar eru ekki lífið sjálft

Biskup minntist á söguna af dansinum í kringum gullkálfinn, sem snýst um að fólk dýrkaði eitthvað sem væri innantómt. Hún sagði dansinn vera tákn um græðgi og þrá okkar eftir veraldlegum gæðum og dæmi um að við missum sjónar á því sem skiptir raunverulega máli í lífinu. Hún sagði peninga vissulega færa okkur þak yfir höfuðið og mat á borðið.

„Þeir eru verkfæri sem við notum í lífinu en þeir eru ekki lífið sjálft,“ sagði hún og bætti við að peningar væru góður þjónn en vondur húsbóndi og enn verri guð.

Nefndi hún að Alþingi hefði mikilvægu hlutverki að gegna í þessu hlutverki því hvert samfélag þyrfti á reglum að halda til að beina okkur frá gullkálfinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert