Sjáum til lands í baráttunni við verðbólguna

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 í …
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025 í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það eru öll merki um að ís­lenskt sam­fé­lag sé að ná ár­angri í bar­átt­unni gegn verðbólgu. Við sjá­um fram á bjart­ari tíma með lægri vöxt­um,“ sagði Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, þegar hann kynnti fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir árið 2025 í morg­un und­ir yf­ir­skrift­inni: Þetta er allt að koma.

Sig­urður Ingi sagði að í fjár­lög­un­um væru sköpuð skil­yrði fyr­ir lægri vexti og verðbólgu. Fjár­mun­um væri for­gangsraðað og lögð áhersla á aðhald í út­gjöld­um.

„Helsta áskor­un­in okk­ar er að ná niður verðbólgu og vöxt­um,“ sagði ráðherr­ann og bætti við að vaxta­byrði heim­ila hefði auk­ist þrátt fyr­ir að skulda­hlut­fallið væri lágt í sögu­legu sam­hengi. „Við erum ein­hvers staðar í kring­um 2017 eins og staðan er í dag hvað varðar vaxta­byrði heim­il­anna,“ sagði hann. Það hefði til að mynda verið hærra árið 2013.

Hann sagði unga fólkið á hús­næðismarkaði vera stóra áskor­un en að við vær­um á réttri leið til að kæla niður hag­kerfið.

„Við erum að ná jafn­væg­inu eft­ir gríðarlega mikið þenslu­tíma­bil,“ sagði hann. 

Ráðherr­ann benti á að ráðist hefði verið í 44 millj­arða króna hús­næðisstuðning á þessu ári og að á næsta ári yrði upp­hæðin um 40 millj­arðar.

Fjöl­breytt­ur út­flutn­ing­ur

Sig­urður Ingi tók fram að mik­ill kraft­ur væri í ís­lensku sam­fé­lagi og benti á að aðeins Króatía væri yfir Íslandi þegar kæmi að hag­vexti.

Hann sagði fjöl­breytt­an út­flutn­ing hafa ein­kennt ís­lenskt sam­fé­lag síðustu ár. Á meðan ferðaþjón­ust­an hefði gefið eft­ir væru nýj­ar grein­ar að vaxa hratt á borð við tækni­grein­ar, lyfja­út­flutn­ing og fisk­eldi.

Sigurður Ingi Jóhannsson er hann kynnti frumvarpið.
Sig­urður Ingi Jó­hanns­son er hann kynnti frum­varpið. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Sig­urður Ingi nefndi að kaup­mátt­ur hefði vaxið hraðar hér­lend­is en á öll­um hinum Norður­lönd­un­um, þar sem hann hefði ekki náð sér al­menni­lega á strik eft­ir Covid-19. Hér hefði aft­ur á mótið orðið kaup­mátt­ar­aukn­ing. Bætti hann við að at­vinnu­leysi væri lítið hér á landi.

4,1% út­gjalda­vöxt­ur

Ráðherr­ann benti á að rík­is­stjórn­in hefði hækkað barna­bæt­ur og að gjald­frjáls­ar skóla­máltíðir myndu skila um 12 þúsund króna sparnaði á mánuði vegna eins barns í grunn­skóla til hverr­ar fjöl­skyldu. Verið væri að hækka há­marks­greiðslur í fæðing­ar­or­lofi og að hús­næðis­bæt­ur hefðu verið hækkaðar um 25% á þessu ári.

Hann sagði 4,1% út­gjalda­vöxt verða á næsta ári, sam­kvæmt fjár­laga­frum­varp­inu, sem er und­ir meðaltali síðustu ára. Hóf­leg­ur út­gjalda­vöxt­ur styrkti stöðu rík­is­sjóðs og aðstoðaði við hjöðnun verðbólgu.

Minni um­svif fimmta árið í röð

„Þetta er fimmta árið í röð sem rík­is­sjóður er að minnka um­svif sín í hlut­falli af stærð hag­kerf­is­ins. Topp­ur­inn kem­ur þar sem Covid er. Síðan höf­um við mark­visst verið að ná um­svif­un­um niður án þess að taka kollsteyp­ur,“ sagði Sig­urður Ingi og nefndi að af­koma rík­is­sjóðs myndi batna um 16 millj­arða króna en um 70 millj­arðar króna færu í vexti á næsta ári.

„Eft­ir þenslu­tíma­bil sjá­um við til lands í bar­átt­unni við verðbólgu og þess vegna segj­um við: Þetta er allt að koma.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert