Snjór á milli Blönduóss og Sauðárkróks

Snjóað hafði töluvert í kringum Þverárfjallsveg á Laxárdalsheiði á milli …
Snjóað hafði töluvert í kringum Þverárfjallsveg á Laxárdalsheiði á milli Sauðárkróks og Blönduóss í dag. Skjáskot/Vegagerðin.

„Á meðan kalda loftið hangir hérna nálægt landi þá getum við alveg átt von á þessu við og við. En það er meira til fjalla,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan hefur snjóað við Þverárfjallsveg á Laxárdalsheiði, á leiðinni milli Sauðárkróks og Blönduós.

Eiríkur segir að þetta beri ekki til árlega en þó sé ekki sérstaklega óvenjulegt að það snjói þarna í september.

„Staðan sem er uppi núna er sú að það byggðist upp háþrýstingur yfir Skandinavíu og lægð kom hérna suður fyrir landið og fór svo norður fyrir austan. Þá fór hún í blandi við hæðina að draga kalt loft norður úr Íshafinu,“ segir hann.

„Hún dró með sér raka suður af, sem mætti svo kalda loftinu og úr varð snjókoma.“

Stutt í kalda loftið

Eiríkur segir líkur á því að eitthvað muni snjóa aftur til fjalla um næstu helgi vegna lægðar sem gæti þá farið svipaða leið.

„Það er stutt í kalda loftið hérna norður af eftir þessa lægð núna. Hún er búin að draga það svolítið mikið niður til okkar. Þegar þær fara svona austur fyrir, ef þær halda áfram að gera það í september, þá er stutt fyrir þær að ná í kalda loftið,“ segir veðurfræðingurinn.

Bætir hann við að á meðan kalda loftið hangi nálægt landi geti landinn átt von á einhverri snjókomu til fjalla.

Muni ekki skapa vandræði

Nefnir Eiríkur að veghitinn sé þó enn slíkur á fjallvegum eins og staðan er núna að snjórinn festist ekki almennilega til þess að skapa vandræði. 

„Auðvitað, ef það fer að verða kalt í langan tíma, þá lækkar veghitinn en eins og þetta er núna þá eru þetta skammtíma samgöngutruflanir á meðan snjókoman gengur yfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert