Ríkisstjórnin boðar 216 þingmál á þingmálaskrá sinni, sem þingheimi var afhent í gær. Langstærstur hlutinn er frumvörp, alls 159 talsins.
Nokkuð er um endurflutt frumvörp af ýmsum toga, sem dagaði uppi af ýmsum ástæðum á síðasta þingi, en að venju eru mörg mál, sem lögð eru fram vegna alþjóðlegra skuldbindinga eða til frekari samræmingar, megnið innleiðingar á Evrópulöggjöf vegna Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar boða jafnframt 40 þingsályktunartillögur, bæði til stefnumörkunar, áætlanagerðar á ýmsum sviðum og staðfestingar á alþjóðlegum skuldbindingum.
Loks boða ráðherrar 17 reglulegar skýrslur til Alþingis í ýmsum málaflokkum.
Þetta er svipaður fjöldi þingmála og lagður var fram í þingmálaskrá á sama tíma í fyrra, en það reyndist þrautin þyngri að koma þeim öllum í gegnum þingið. Viðbúið er að sömu sögu verði að segja á þessu þingi og raunar má ráða nokkuð í áherslur ráðherra af því hvenær frumvörpin eru boðuð, fyrir jól eða eftir, strax nú í september eða ekki fyrr en í mars.
Athygli vekur til dæmis að utanríkisráðherra boðar aðeins eitt frumvarp, en það er endurflutt frumvarp um hina umdeildu bókun 35, sem lagt verður fram á fyrstu dögum þingsins.
Frumvörp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum vegna alþjóðlegrar verndar og lokaðs brottfararúrræðis eiga að koma í nóvember, en hins vegar vekur athygli að hann boðar frumvarp um netverslun með áfengi nú í október.
Félagsmálaráðherra leggur í nóvember samhliða fram ný heildarlög um málefni innflytjenda.
Fjármálaráðherra er með mikinn málastabba, en þar á meðal er frumvarp um „slit ógjaldfærra opinberra aðila“, þar sem tekið er á málefnum ÍL-sjóðs. Ráðherra leggur til ýmsa nýja skatta og gjöld, að Bankasýslan verði lögð niður og einnig að fjármálaráðherra verði yfir allri upplýsingatækni ríkisins. Þá vekur athygli frumvarp um að fjármálaáætlun skuli ekki lögð fram á kosningaári.
Heilbrigðisráðherra opnar hins vegar með heildarlögum um sóttvarnir, en matvælaráðherra hyggst innleiða eitt og annað úr stefnumótun Auðlindarinnar okkar. Menningarráðherra leggur mesta áherslu á þjóðaróperu og að festa í sessi styrkjakerfi einkarekinna fjölmiðla. Menntamálaráðherra virðist ætla að taka samræmd próf upp að nýju og flytja Alþingi loks skýrslu um grunnskólann. Umhverfisráðherra vill lögfesta áfasta tappa á plastflöskum og breytingar á rammaáætlun í þrennu lagi.
Umfjöllunina í heild sinni má nálgast í Morgunblaðinu í dag.