„Það er ekki skynsamlegt að fara í niðurskurð“

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra kynnir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2025. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það sé ekki skynsamlegt að fara í niðurskurð, sem myndi valda gífurlegu atvinnuleysi.

Þetta segir hann í samtali við mbl.is í kjölfar kynningar á fjárlögum fyrir árið 2025.

Í fjárlögum er gert ráð fyrir því að útgjaldavöxtur verði 4,1% og að halli á ríkissjóði muni nema 41 milljarði króna.

Fengjum „massíft atvinnuleysi“ í bakið ef skilað yrði afgangi

Það er áframhaldandi skuldasöfnun, var ekki hægt að fara í neinn niðurskurð?

„Það er ekki skynsamlegt að fara í niðurskurð á tímum þar sem við erum að aðlaga, og náum að aðlaga hagkerfið, eftir þetta mikla þenslutímabil. Með umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að einhverju leyti Seðlabankans á því að þetta aðhald sé nóg til að ná fram þessari mynd sem ég var að teikna hérna upp, um að á næstu mánuðum fer verðbólga niður og vextir væntanlega í framhaldinu,“ segir Sigurður og bætir við:

„Þá erum við einfaldlega á réttri leið og við náum með þeim hætti að verja kaupmátt fólksins í landinu, verja atvinnu þess, sem ég held að sé miklu mikilvægara heldur en einhver kollsteypa í því að kippa ríkissjóði í plús í einu vetfangi og fá síðan í bakið massíft atvinnuleysi í kjölfarið.“

Hefði kallað fram niðurskurð

Í fjárlögum var það kynnt að krónutöluhækkanir á gjöldum myndu hækka um 2,5%, í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans, í stað þess að hækka í samræmi við verðbólgu.

Hefði það nokkuð kollsteypt hagkerfinu að hafa útgjaldavöxtin einnig í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans?

„Það hefði að sjálfsögðu þá kallað fram verulegan niðurskurð og fækkun starfa, sem við erum að leggjast gegn,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert